Við viljum lýðræði í bæjarstjórn, ekki foringjaeinræði!

Í nýútkominni skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er m.a. talað um að foringjaeinræði hafi ríkt í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi. Hið sama gildir um bæjarstjórn Reykjanesbæjar hin síðari misseri. Bæjarstjórn þarf að taka upp ný vinnubrögð með áherslu á samvinnu og lýðræði. Slík vinnubrögð viljum við Framsóknarmenn innleiða og standa fyrir í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, enda ekki vanþörf á. Við trúum því að þannig megi ná mun meiri sátt um þau verkefni og aðgerðir sem bæjaryfirvöld ráðast í hverju sinni. Ákvarðanataka verður markvissari og ekki verður ráðist í verkefni af fljótfærni sem kosta illa staddan bæjarsjóð peninga, sem ekki er innistæða fyrir.

Flott fólk í Framsókn
Framsóknarflokkurinn í Reykjanesbæ hefur nú stillt upp og kynnt framboðslista sinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Listinn samanstendur af kraftmiklum einstaklingum sem búa yfir góðri reynslu af stjórnmálastarfi og nýju fólki sem er að bjóða sig fram til bæjarstjórnar í fyrsta sinn. Góð menntun einkennir hópinn ásamt víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Í átta efstu sætunum er 4 karlar og 4 konur (sjá nánar á www.xbreykjanesbaer.is) svo kynjaskipting er eins jöfn og hún getur orðið.

Framsókn er fyrirmynd
Í undirbúningsvinnunni, sem staðið hefur undanfarnar vikur, hefur mikil áhersla verið lögð á samvinnu frambjóðenda og lýðræðisleg vinnubrögð. Krafan um breytingar í íslenskum stjórnmálum nær því ekki aðeins til Alþingis heldur einnig til sveitarstjórna. Okkar skoðun er sú að allir meðlimir í bæjarstjórn eiga að vinna saman hvort sem þeir eru í meirihluta eða minnihluta líkt og við rekstur heimilis. Valdið er í höndum kjósenda og með því að setja X við B á kjördag munt þú, kjósandi góður, leggja þitt af mörkum til þess að auka og efla lýðræðisleg vinnubrögð í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á komandi kjörtímabili.

Lýðræði í bæjarstjórn! XB!
Eyrún Jana Sigurðardóttir,
3. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ