Vöndum okkur
Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar
Öll könnumst við það að hlaupa á okkur, það er partur af mannlegu eðli. Mamma mín sagði mér alltaf að reyna að anda djúpt og telja upp að 10 þegar ég væri reiður því menn tækju sjaldnast rökréttar ákvarðanir í þeim ham. Því miður fór ég ekki alltaf eftir ráðum mömmu en í þau skipti sem ég hef gert það þá hefur þessi tækni virkað. Á það nefnilega til að vera ansi fljótur upp (dómharður) og geri hluti sem ég hef séð eftir en sem betur fer hef ég þroskast með aldrinum.
Netvæðingin hefur gefið nánast öllum tækifæri til þess að láta eigin skoðanir í ljós á hverju sem er. Hér áður fyrr ræddu menn öll þau mál sem báru hæst hverju sinni á kaffistofunum eða jafnvel í heitu pottunum og þá augliti til auglitis. Á þann hátt sem samskipti gerast best. Með öllum samfélagsmiðlunum í dag þá fer þjóðmálaumræðan oft fram af mikilli heift og margir sem hlaupa hressilega á sig. Oftar en ekki er þetta frekar saklaust en það er ákaflega dapurt þegar fullorðið fólk fer í skotgrafirnar með mjög ljótum orðum og persónulegum níð sem það myndi sjaldnast eða aldrei þora að segja við viðkomandi í eigin persónu. (Yfirleitt samt illskiljanlegt því þeir verstu kunna yfirleitt ekki að stafsetja.) Þekki örfáa sem telja til dæmis athugasemdakerfi fjölmiðlanna hafa bætt þjóðmálaumræðuna, þvert á móti. Gleymi því seint þegar það kom frétt um mann sem var dæmdur fyrir kynferðislega áreitni en sá starfaði við nudd. Kona ein á besta aldri setti athugasemd og sagðist hafa farið til hans í tugi ára og aldrei upplifað neitt misjafnt. Sá næsti sem setti athugasemd skrifaði einfaldlega að af profile mynd hennar að dæma væri hún það ljót að það væri ekkert skrítið að hann hefði látið hana eiga sig! Það er ekki öll vitleysan eins og það þarf mikið til þess að ég missi andlitið. Þessu var sem betur fer eytt en skjáskot gengu manna á milli lengi vel, þessum ágæta manni eflaust til lítillar gleði, eða fjölskyldu hans. Tók það að mér fyrir nokkru að vera „admin“ á ansi skemmtilegri Facebook-síðu sem tengist mínu helsta áhugamáli körfubolta og þar hafa stundum komið upp atvik þar sem menn æða fram á ritvöllinn í miklum „ham“ og láta orð falla sem betur hefðu verið ósögð. Oftast dugar það að senda viðkomandi línu og yfirleitt sér sá aðili að sér en í sumum tilfellum þá er þarna fólk úti sem einfaldlega ætti ekki að vera með aðgang að internetinu. Það sem fer á netið hverfur nefnilega aldrei. Teljum upp að 10 og vöndum okkur, við erum fyrirmyndir og eftir höfðinu dansa limirnir.