Viðhorfsbreyting
Pulsuvagninn í Keflavík hefur í lengi verið minn uppáhaldsveitingastaður. Það er eitthvað ómótstæðilegt við Villaborgarana. Þjónustan alltaf til fyrirmyndar sem og gæðin. Ég þekki fjölda höfuðborgarbúa sem hafa það fyrir reglu að stoppa á Pulsuvagninum því hann er „einn af þeim bestu“ á landinu.
Það var líka þannig um langa tíð að fátt var um fína drætti á svæðinu ef manni langaði í eitthvað annað en skyndibita. Fara fínt út að borða var ekki inn í myndinni nema fara til Reykjavíkur.
Umbylting hefur orðið á undanförnum misserum með komu veitingastaða eins og Library á Hafnargötunni og KEF Restaurant á Hótel Keflavík sem var endurbætt af glæsibrag. Í upphafi árs opnaði The Bridge á nýja Marriott hótelinu og um síðustu helgi Fiskbarinn á Hótel Bergi. Þessir staðir hafa bæst við hreint ágæta flóru góðra veitingastaða í Grindavík og svo er náttúrlega toppurinn á öllu saman Moss í Bláa lóninu.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum skrifuðu í júní 2016 undir samstarfssamning sem hefur það að markmiði að bæta ímynd svæðisins með sérstöku markaðsátaki. Ímynd svæðisins hafði of lengi einkennst af atvinnuleysi og neikvæðum fréttum. Markaðsátakið ber heitið Reykjanes - við höfum góða sögu að segja! Á vefnum reykjanes.is er að finna frábær hlaðvörp þar sem rætt er við Suðurnesjafólk. Ég hvet ykkur til að hlusta.
Vilji sveitarfélögin á Suðurnesjum bæta ímynd svæðisins ættu þau að fara í samstarf við glæsilegu hótelin og frábæru veitingastaðina sem hér er að finna og bjóða höfuðborgarbúum og öðrum landsmönnum ferðaávísun til Suðurnesja.
Viðhorfi verður ekki breytt nema fólk fái að upplifa af eigin raun.
Margeir Vilhjálmsson.