Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Viðburðaríkt ár að baki
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ
Laugardagur 1. janúar 2022 kl. 07:09

Viðburðaríkt ár að baki

Árið 2021 hefur að mörgu leyti verið tíðindameira en mörg önnur ár. Heimsfaraldur Covid-19 öðlaðist aukinn kraft í upphafi ársins, eftir að hafa heldur dregið úr honum vikurnar áður. Heimsfaraldurinn stjórnaði okkar tilveru meira en við hefðum viljað og meira en við sáum fyrir að myndi verða. Fyrir utan áhrif á heilbrigðiskerfið, þá birtust afleiðingarnar skýrt í atvinnulífinu með miklu atvinnuleysi, en sem betur fer dró hratt úr fjölda þeirra sem voru án atvinnu þegar leið á árið 2021, samhliða því að dregið var úr samkomutakmörkunum og erlendir ferðamenn fóru að koma í meiri mæli til landsins. Nú undir lok ársins hafði þetta staðið til bóta og dregið hafði hratt úr atvinnuleysinu, enda birtist aukin atvinnuþátttaka með tilheyrandi atvinnutekjum einstaklinga í auknum útsvarstekjum sveitarfélaganna. Fyrir nokkrum vikum gaus svo aftur upp bylgja Covid-19-smita sem vonandi hefur ekki mjög neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna og samfélagið í heild til lengri tíma. Nú undir lok ársins hafa dagleg Covid-19-smit slegið öll fyrri fjöldamet og er útlit fyrir að nýtt ár taki við mjög virkum heimsfaraldri frá því ári sem nú kveður.

Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar, sem hefur m.a. það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaáætlunum og taka ákvarðanir um viðbrögð og framkvæmd samkomutakmarkana og sóttvarnaaðgerða hverju sinni, fundaði mjög oft á árinu og þurfti að láta til sín taka. Aðgerðastjórnin hefur átt mjög gott samstarf við stjórnendur stofnana hjá Suðurnesjabæ, en helst hefur reynt á stjórnendur leikskólanna og grunnskólanna við að bregðast við því sem upp hefur komið. Öllu þessu fólki, bæði stjórnendum og starfsfólki stofnana Suðurnesjabæjar, sem og nemendum skólanna og íbúum almennt, er þakkað fyrir frábært samstarf við þessar óvenjulegu aðstæður og allir eiga hrós skilið fyrir sín störf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margt fór úr skorðum vegna Covid-19 á árinu. Það þurfti að aflýsa þorrablóti Suðurnesjamanna í Garði, sem samkvæmt venju átti að fara fram í lok janúar. Árshátíð starfsfólks Suðurnesjabæjar var aflýst og bæjarhátíð sem búið var að undirbúa síðsumars var blásin af. Hins vegar tókst að halda ýmsa smærri viðburði í stað bæjarhátíðar og var almenn ánægja með það.

Við þurftum ekki aðeins að glíma við afleiðingar Covid-19 á árinu 2021. Eftir mikla hrinu jarðskjálfta hófst eldgos í Geldingadölum við Fagradalsfjall í mars. Reykjanesið er jarðfræðilega mjög virkt svæði bæði vegna Atlantshafshryggjarins sem gengur hér á landi við Reykjanestá og þeirrar eldvirkni sem liggur undir niðri. Það hafði fram að þessu oft verið fjallað um að líklega sé kominn tími á eldgos á svæðinu, ef litið er til sögulegra gagna um eldvirkni á Reykjanesi. Þetta gos kom upp á besta stað, nánast hvernig sem á það er litið. Fyrir nokkrum dögum var haldið upp á að þessu gosi væri lokið, en nánast sama daginn hófst skjálftavirkni á ný og taldar eru miklar líkur á að eldgos kvikni aftur á svæðinu.

Miklar fjárfestingar og framkvæmdir hafa verið á vegum Suðurnesjabæjar á árinu 2021. Unnið var að viðbyggingu við Gerðaskóla og hún tekin í notkun síðsumars. Þá var ráðist í endurbætur á elsta hluta Gerðaskóla, þar sem ástand hússins var orðið þannig að það var nánast ónothæft. Því verkefni lauk fyrir upphaf skólaársins. Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum fyrir íbúðarhúsnæði og hefur verið úthlutað lóðum undir rúmlega 100 íbúðir á árinu 2021. Mikil uppbygging innviða, gatna og veitukerfa hefur verið í gangi í Suðurnesjabæ, bæði í Garði og í Sandgerði. Á árinu 2022 verður áfram haldið við uppbyggingu innviða, breytingar og vinnslu á tilheyrandi skipulagi o.s.frv. Fyrir liggja fyrirspurnir um lóðir undir fjölmargar íbúðir. Undir lok ársins hófust framkvæmdir við nýjan leikskóla í Sandgerði og er áformað að hann hefji starfsemi um mitt ár 2023. Auk þessara verkefna var unnið að ýmsum öðrum framkvæmdum, bæði nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum. Þá voru mikil umsvif á vegum Suðurnesjabæjar í sumar og mörg ungmenni höfðu sumarvinnu hjá sveitarfélaginu, vinnuframlag þeirra var mikilvægt og þau leystu vel úr ýmsum verkefnum sem vinna þurfti.

Unnið hefur verið að gerð aðalskipulags fyrir Suðurnesjabæ, en í aðalskipulagi eru settar fram áætlanir um uppbyggingu sveitarfélagsins til næstu áratuga og um ýmislegt varðandi mannlíf, náttúrufar og almenna þróun samfélagsins. Vinnsla fyrsta aðalskipulags fyrir nýtt sveitarfélag er spennandi verkefni og því fylgir einnig mikil ábyrgð, þar sem línur eru lagðar til langrar framtíðar um uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins. Þá má nefna að nú í desember var tilkynnt hvaða aðilar munu leiða verkefni á vegum Kadeco við vinnslu þróunaráætlunar um uppbyggingu á landi í eigu ríkisins í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Þetta er gríðarlega mikilvægt og spennandi verkefni, sem getur skipt sköpum um farsæla uppbyggingu, þróun svæðisins og atvinnustarfsemi, sem mun skipta íbúana miklu máli til framtíðar. Þetta er ekki aðeins hagsmunamál okkar á Suðurnesjum, heldur varðar þetta verkefni hagsmuni allrar þjóðarinnar og er von til að vel gangi að vinna úr því.

Atvinnustarfsemi sem ekki byggir að mestu eða alfarið á ferðaþjónustu gekk vel á árinu og er þar fyrst og fremst um að ræða sjávarútveginn. Undir lok ársins kom hið glæsilega hátækni fullvinnsluskip Baldvin Njálsson heim eftir að hafa verið smíðaður á Spáni. Skipið er í eigu Nesfisks í Garði og er að margra mati eitt fallegasta fiskiskip sem siglt hefur við strendur landsins. Eigendur Nesfisks og áhöfnin á Baldvin Njálssyni fá bestu hamingjuóskir með skipið og óskir um farsæld og gott gengi.

Viðburðaríkt ár er að baki, sem var að mörgu leyti gott ár þrátt fyrir áföll, afleiðingar af Covid-19 og ýmsar aðrar áskoranir sem við stóðum frammi fyrir. Við sem samfélag tókumst saman á við það og leystum mörg mismunandi verkefni í góðri samvinnu. Ég þakka fjölmörgum fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á árinu, ekki síst á það við um starfsfólk og íbúa Suðurnesjabæjar. Áramót eru jafnan mjög sérstakur tímapunktur þar sem litið er til baka og liðið ár er gert upp. Á sama hátt eru miklar væntingar í upphafi nýs árs og spennandi að reyna að spá fyrir um hvað nýtt ár ber í skauti sér. Að þessu sinni ríkir bjartsýni í huga bæjarstjórans og jafnframt góðar væntingar um að árið 2022 verði okkur öllum hagfellt og kærleiksríkt.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ