Við plöntum fræjum allt lífið
Nú farið að síga á seinni hluta þessarar lærdómsríku ferðar hér í Indlandi. Á meðan maður jú þokast áfram veginn í jógastöðunum, eins og að komast lengra niður í splittinu eða standa lengur á höndum o.s.frv., þá er það andlega ferðalagið sem er líka svo áhrifamikið. Að sitja einn uppi með sjálfan sig og vera í andlegum pælingum og líkamlegum, já á hverjum degi hefur verið súper hollt. Að æfa sig í því að vera heiðarlegur við sjálfan sig og láta ekki egóið standa í vegi fyrir manni sjálfum. Fara yfir það hvaða fræjum ég hef plantað í gegnum tíðina.
Hvaða fræjum erum við að planta í okkar lífi, í lífi barnanna okkar og annars samferðafólks.
Hvaða fræjum ætla ég að planta nú í seinni hálfleik þessarar tilveru minnar? Allt sem við segjum og gerum er í raun lítil fræ sem við plöntum á leið okkar í gegnum lífið og hefur áhrif á hvert leið okkar liggur og hvernig ferðalagið verður. Einnig er misjafnt hvað fræin eru lengi að vaxa og dafna og hvenær blómið verður til.
Þú þarft samt ekkert að fara til þess að gera þessa hluti, þú getur gert þá hvar sem er, heima hjá þér, lesið bækur, æft þig, allt hægt að fá á netinu eða bókasafninu. Bingó, bara algjör snilld.
En ef maður hefur tök á að fara í ævintýraferðir, og/eða langar skipta um starfsvettvang og byrja nýjan starfsferil, þá held ég að að maður eigi að láta vaða. Besti afmælisdagur sem ég hef átt var 40 ára afmælið, mesta puðið búið. Ég var nítján ára byrjuð að búa og orðin mamma. Fertug sá ég glitta í frelsið og möguleikann á að hoppa af hraðlestinni og prófa nýja hluti á komandi árum. Enn ung, hraust og full af krafti. Að láta þá ekki ótta við að eitthvað sé kannski asnalegt, of seint eða ópraktískt stoppa sig. Hvað mun fólki finnast? Verður slúðrað um mig?
Þorum að vera til og nennum að vera til. Spyrjum okkur að því hvernig myndum við lifa ef enginn væri að horfa?
Leiðinlegasta setningin í íslensku máli er að mínu mati „ég nenni því ekki,“ gubb hvað þetta er glötuð setning og ofnotuð.
Og fyrir mig þá finn ég letina læðast upp hrygginn á mér eftir því sem ég eldist. Ég verð 49 ára í sumar og ef ég leyfi mér það þá finnst mér einhvern veginn allt aðeins meira vesen og þá lætur maður það eftir sér að hætta að nenna hinu og þessu og þá verður maður gamall jafnvel þó maður sé enn ungur að árum. Þannig að að fyrir mig þá er það bara áfram veginn, halda áfram að nenna öllu sem er skemmtilegt og heldur manni ungum, ekkert væl.
Vera þakklát og glöð fyrir hvern dag sem ég fæ að vakna og get stigið í lappirnar og njóta þess að vera til.
P.s þið sem eruð að lesa þessa pistla, takk fyrir.
Namaste,
Una.