Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Vertu sæl Fésbók
Föstudagur 26. apríl 2024 kl. 06:01

Vertu sæl Fésbók

Fyrir nokkrum vikum kom babb í bátinn hjá stærsta samfélagsmiðli í heimi, Facebook. Köllum það bara tölvuvesen. Varð þess valdandi að ég datt út af miðlinum og hef ekki getað skráð mig inn síðan.

Góð ráð voru dýr. Leitaði til allra minna bestu vina í samfélagsmiðlageiranum og enginn gat fundið lausn á þessum vanda. Því er ég lifandi en samt dauður á Fésbókinni. Fékk þau ráð að sætta mig bara við þetta og stofna nýjan aðgang. Fylgdi þeim ráðum. En hvað ætti nýi Margeir að heita á bókinni? Eftir nokkrar pælingar bjó ég til nýjan aðgang, Maddi Vill. Helsta verkefni Madda Vill var að fara inn á Fésbókina, ná sambandi við einhverja gervigreindaraðstoðarmenn og ná aftur tökum á hinu eiginlega sjálfi Margeiri Vilhjálmssyni. Líf Madda Vill á miðlinum náði ekki tuttugu mínútum því á methraða náðu eftirlitsmenn Mark Zuckerberg að greina að þarna væri á ferðinni argasti tölvuþrjótur og settu Madda Vill í 180 daga bann. Hinn upprunalegi Margeir Vilhjálmsson lifir þar hinsvegar góðu lífi en þögull sem gröfin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líf án Fésbókarinnar er frábært. Ég ætla ekki að segja að ég snúi aldrei aftur þangað en get illa sagst vera uppfullur af söknuði. Einn helsti gallinn er að ég man til dæmis ekki eftir neinum afmælum. Þykir það leitt.

Geri ekki ráð fyrir að neinir sakni sérlega greininga minna á gengi enskra knattspyrnuliða, þá sérstaklega Liverpool. En að öllu gríni slepptu þá ættu margir miðaldra íslenskir karlmenn að leita sér hjálpar við enskafótboltaheilkenninu. Að láta úrslit í fótboltaleik á Englandi setja sig úr andlegu jafnvægi er útgáfa af klikkun sem menn ættu að leita sér hjálpar við. Þá er samfélagsmessa í kirkju ekki svarið. Mæli með íslenska boltanum.

Pólitíkin fer sem betur fer aðeins framhjá manni, því þvert á flokka virðast allmargir stjórnmálamenn halda að hægt sé að stýra landinu eða sveitarfélögum með samfélagsmiðlafærslum. Sú aðferðafræði hefur m.a. gefið okkur stjórnlausa höfuðborg og fjórar ríkisstjórnir á rétt rúmlega hálfu kjörtímabili.

Einn besti kostur þess að vera laus við Fésbókina er að auglýsingarnar sem elta þig breytast. Farsíminn er alltaf að hlusta. Á komandi vikum munu auglýsingarnar vegna forsetakosninganna ná hámarki. Þið megið trúa því að þessar kosningar eru fyrst og fremst einvígi fremstu auglýsinga- og samfélagsmiðlafræðinga landsins. Áætlað er að virkustu frambjóðendurnir muni setja tugi milljóna í kosningabaráttuna sem að mestu verður háð á samfélagsmiðlum. Það eru fjármunir sem renna úr landi. Gáfulegt er það ekki.

Verkefni kjósenda er að velja hæfasta einstaklinginn í verkið. Mætið á fundina sem frambjóðendur halda í héraði, hittið þá og myndið ykkur skoðun.

Kjósið forseta án hjálpar Facebook, Íslandi til heilla.