Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Vertíðaruppgjörið er að koma út
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 31. maí 2024 kl. 06:02

Vertíðaruppgjörið er að koma út

Nú líður að lokum þessa maímánaðar og ennþá ber lítið á sumrinu, í það minnsta er búið að vera ansi kalt hérna á Suðurnesjunum í maí.

Strandveiðisjómenn sem hafa verið mjög margir í Sandgerði núna í maí geta verið ansi sáttir með þennan mánuð en í næsta pistli verður betur hægt að líta á hvernig bátunum gekk, því þegar þessi pistill er skrifaður þá eru nokkrir dagar eftir af maí sem bátarnir mega róa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Strandveiðibátarnir mega vera á sjó mánudaga til fimmtudaga, eða fjóra daga í viku.

Dragnótabátarnir hafa róið núna í maí og gengið þokkalega. Sigurfari GK er hæstur af þeim með 128 tonn í níu róðrum og mest 32 tonn í einni löndun. Siggi Bjarna GK með 110 tonn í átta og mest 20 tonn. Maggý VE með 100 tonn í tíu og mest 18 tonn. Benni Sæm GK með 78 tonn í átta og mest 13 tonn. Aðalbjörg RE með 85 tonn í tíu og mest 12 tonn.

Athygli vekur að í aflanum hjá Aðalbjörgu RE er aðeins níu tonn af þorski af þessum 85 tonnum sem báturinn hefur landað.  Mest af aflanum hjá Aðalbjörgu RE er koli, t.d 16,7 tonn af langlúru,  11,5 tonn af sandkola og 21 tonn af sólkola, eða sápustykkinu. Sólkolinn er ansi verðmætur en hræðilega sleipur að eiga við, ég man þann tíma þegar ég sjálfur var á sjó á Þór Péturssyni GK og við fengum eitt sinn 8 tonna hal utan við Sandgerði og af því voru um sex tonn af sólkola. Ljóta helvítið að slægja svona mikið magn af sólkola enda fiskurinn mjög sleipur og erfitt að ná taki á honum. 

Áhöfnin á Aðalbjörgu RE er þrælvön og nokkrir af þeim sem eru á bátnum voru lengi á Njáli RE.  Njáll RE var gerður út frá Sandgerði og var að mestu með áhöfn frá Sandgerði í hátt í 25 ár. Ekki stærsti dragnótabáturinn en útgerð bátsins gekk alltaf ansi vel og reyndar er saga Njáls RE og eiganda bátsins ansi merkileg, fer kanski í þá sögu síðar. Skipstjórinn á Njáli RE flest öll þessi 25 ár þegar að báturinn réri frá Sandgerði var Hjörtur Jóhannesson en hann á í dag strandveiðibát sem heitir Stakasteinn. 

Njáll RE heitir í dag Silfurborg SU og er gerður út frá Breiðdalsvík. Njáll RE var blár á litinn en Silfurborg SU er fallega rauður á litinn og hefur fiskað ansi vel núna í maí. 116 tonn í þrettán róðrum og mest 14,4 tonn, öllu landað á Breiðdalsvík.

Annars ætla ég að nota tækifærið og benda á að undanfarin sautján ár eða svo hef ég skrifað og fjallað um vetrarvertíðirnar, og síðan 2017 hef ég skrifað og gefið út það sem ég kalla vertíðaruppgjör. Núna er nýjasta vertíðaruppgjörið komið út. Ritið er ansi stórt núna eða 54 blaðsíður, og í því er litið á vertíðina 2024–1994 og 1974.  Samhliða því er litið á togarana og loðnubátana þessi ár.  Bæði árin 1994 og 1974 var mikil loðnuveiði og mikið af þeirri loðnu kom í hafnir í Grindavík, Sandgerði og Helguvík.

Þrjátíu ljósmyndir eru í ritinu og þar á meðal myndir frá mér og föður mínum, Reyni Sveinssyni og myndin sem fylgir þessum pistli er af Dagfara GK en þessi litli bátur mokveiddi á loðnuvertíðinni 1994, faðir minn tók myndina . Þið ykkar sem hafið áhuga á ritinu getið pantað það hjá mér í síma 663-5575 eða hjá Hrefnu konunni minni í síma 774-3616, eða sent netpóst á [email protected]

Fyrst ég er byrjaður að skrifa svona um sjálfan mig, langar mig að benda á að 2. júní kemur í Morgunblaðinu, aukablað sem er sjómannadagsblað Morgunblaðsins, í því blaði er ansi stórt og mikið viðtal við mig.