Vertíðarlok
Nei ég ætla ekki að tala um sjávarútveg, heldur eitthvað allt annað.
Verslunarmannahelgin er tiltölulega nýliðin og má segja að hún marki ákveðin vertíðarlok hjá flestum, þ.e.a.s. lok hins íslenska ferðasumars. Sumarfríum að ljúka, skólar og leikskólar að byrja með tilheyrandi lúsa- og njálgspóstum. Sem sagt allt að komast í rútínu að því marki sem veiran leyfir.
Þó er það nú orðið þannig að eftir því sem ferðagræjur fólks hafa orðið betri hefur ferðasumarið lengst frá því sem áður var þegar að nánast sást ekki Íslendingur á ferðalagi eftir verslunarmannahelgina.
Ferðamáti manna, útbúnaður og tæki eru æði misjöfn. Hjá einum eru þægindi og lúxus í hávegum en öðrum ræður einfaldleikinn ríkjum.
En skipta græjurnar og þægindin öllu máli frekar en einfaldleikinn og minemalisminn? Ég held ekki, það hefur hver sinn háttinn á.
Þegar öllu er á botninn hvolft hnígur þetta ekki allt að því að njóta ferðalagsins og síðast en ekki síst að staldra við og njóta augnabliksins óháð græjum og dóti?
Ég vona að þið hafið notið sumarsins og alls þess sem það hefur boðið upp á hingað til.
Jón Steinar Sæmundsson.