Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Verður þá ekkert um að vera í Suðurnesjahöfnum í sumar?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 19. maí 2023 kl. 05:59

Verður þá ekkert um að vera í Suðurnesjahöfnum í sumar?

Þá er vetrarvertíðinni árið 2023 lokið og það er liðin tíð að það sé stemmning í kringum þennan dag en þó geta sjómenn verið sammála um að veiði hafi verið mjög góð í vetur. Það góð að fiskvinnslurnar þurftu að stýra bátunum því of mikið magn var að koma af fiski í land.

Þessi mokveiði í vetur og um haustið 2022 hefur reyndar gert það að verkum að núna eru margir bátar orðnir stopp eða við það að stoppa. Stoppin eru ansi löng, allt fram í ágúst þegar nokkrir bátanna fara að stað aftur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verður þá ekkert um að vera í Suðurnesjahöfnum í sumar?

Já, það má alveg spyrja að þessu – en jú, það er kannski hægt að segja að það verði rólegt en þó kannski ekki því núna er strandveiðitímabilið hafið og það er nú gleðilegt að segja frá því að það eru mun fleiri bátar að róa á strandveiðinni núna frá Suðurnesjunum þetta ár en árið 2022.

Lítum aðeins á staðina.

Grindavík: Þar hafa núna í maí níu bátar sem eru á færum landað og þar er t.d. Sigurvon ÁR með 6,6 tonn, Hrappur GK með 4,7 tonn, Sæfari GK 4,6 með tonn, Grindjáni GK með 4,2 tonn og Þórdís GK 3,9 tonn. Allir eftir fimm róðra.

Gríðarlegur fjöldi af bátum hefur landað í Sandgerði en það sem af er maí hafa 60 bátar landað þar sem eru á færunum og langflestir á strandveiðum.

Þetta er mjög merkilegt og sérstaklega af fjöldi bátanna í Sandgerði er borinn saman við allt Ísland. Þá kemur í ljós að Sandgerði er stærsta löndunarhöfn landsins miðað við fjölda báta núna í maí.  Næst á eftir Sandgerði kemur Ólafsvík með 54 báta sem eru á færum. Næst á eftir þeim koma svo Bolungarvík með 43 báta og Patreksfjörður með 36 báta.

Sandgerðishöfn hefur legið undir ámæli fyrir að vera ein versta höfn landsins með tilliti til þjónustu, sérstaklega gagnvart smábátasjómönnum, t.a.m. með að fá ís og aðstoð við að hífa á krana þegar einn maður er um borð. Þetta heyrði ég mikið í samtölum mínum við sjómenn um allt land, sem vildu koma til Sandgerðis að róa en orðsporið fældi frá.

Í september 2022 var fundur hjá Fiskmarkaðinum í Sandgerði (FMS) þar sem mættu hátt í þrjátíu skipstjórar og rætt var um hvað betur mætti fara varðandi þjónustuna í Sandgerði.

Í kjölfarið var fundur milli FMS og stjórnar Sandgerðishafnar og það hefur leitt til þess að þjónustustigið í höfninni hefur snarbatnað. Í samtölum mínum við sjómenn tala allir um hversu mikil og jákvæð breyting er orðin á þjónustunni í Sandgerðishöfn gagnvart smábátasjómönnum, enda sést það mjög vel núna í maí þegar 60 bátar eru að landa og margir þessara báta eru aðkomubátar.

Bara gott mál og vel gert hjá FMS og stjórn Sandgerðishafnar að hafa bætt þjónustuna svona mikið.

En varðandi aflann þá hefur veiðin hjá þessum 60 bátum verið góð og menn hafa náð skammtinum sínum nokkuð auðveldlega. Lítum á nokkra. Guðrún GK með 6,9 tonn í sjö róðrum, Hlöddi VE með 5,9 tonn, Sigrún GK með 7,9 tonn, Tjúlla GK með 5,7 tonn, Gola GK með 5,6 tonn, Una KE með 4,9 tonn og Bliki GK með 4 tonn, allir eftir sjö róðra.

Nýi Víkingur NS með 4 tonn í sex róðrum, Sigurörn GK með 6,3 tonn, Gréta GK með 5,9 tonn,  Dóri í Vörum GK með 5,9 tonn, Dímon GK með 5,8 tonn, Deilir GK með 5,8 tonn og Hadda HF með 5,6 tonn, allir eftir sjö róðra.

Reyndar er það nú þannig að þorskkvótinn sem strandveiðibátarnir mega veiða núna þessa vertíð er um tíu þúsund tonn – og bátarnir sem eru komnir á veiðar eru um 600 talsins. Menn eru hræddir um að þessi tíu þúsund tonna kvóti muni klárast einhvern tímann í júlí.

Reyndar er það nú þannig að undanfarin sumur hefur ufsaveiðin á færin verið feikilega góð og þónokkrir bátar munu fara á ufsann eftir strandveiðina og til að mynda er Addi Afi GK byrjaður á ufsanum.