Verð á ufsa mjög gott á mörkuðum
Veðurguðirnir eru heldur betur búnir að vera hliðhollir sjómönnum á Suðurnesjum núna í júní, þó svo að þeir sem vilja hafa sól og sumaryl séu ekki eins kátir. Það er nefnilega búið að vera mjög góð tíðin þó svo að sólina hafi vantað og færabátarnir, sem eru gríðarlega margir, hafa getað róið svo til alla þá daga sem þeir mega róa. Eru þetta þá helst strandveiðibátarnir sem mega róa mánudaga til fimmtudaga – og síðan eru nokkrir aðrir færabátar sem eru að mestu að eltast við ufsann út við Eldey.
Veiðin hjá þeim hefur verið góð og þeir bátar sem hafa verið þar eru, t.d. Hópsnes GK sem er kominn með 19,8 tonn í þremur róðrum og mest 7,2 tonn í róðri og Geirfugl GK sem er kominn með 21,7 tonn í þremur og mest 7,6 tonn. Báðir að landa í Grindavík og báðir í eigu Stakkavíkur.
Þeir hafa reyndar verið á veiðum á sömu slóðum og bátarnir frá Sandgerði en þar er t.d. Addi Afi GK sem er kominn með 26,7 tonn í sex róðrum og mest 7,7 tonn og Ragnar Alfreðs GK sem er kominn með 13,2 tonn í fjórum róðrum.
Mjög margir strandveiðibátar eru að róa og eru um 60 bátar í Sandgerði, nokkrir þeirra eru á það hraðskreiðum bátum að þeir ná að fara nokkuð langt út og áleiðis að ufsanum þarna við Eldey en strandveiðibátar mega vera lengst fjórtán tíma höfn í höfn.
Reyndar er veiðin hjá strandveiðibátunum búin að vera mjög góð og hafa þeir verið að ná skammtinum sínum nokkuð auðveldlega og líka aukaafla, eins og t.d. ýsu, karfa og ufsa.
Lítum á nokkra báta. Una KE með 8,7 tonn í átta, Bliki GK 8,1 tonn í átta, Gola GK 7,1 tonn í sjö, Tjúlla GK 6,8 tonn í átta og Von GK 6,2 tonn í fjórum en þessi bátur er ekki á strandveiðum. Allir þessir bátar að landa í Sandgerði.
Hérna er að neðan er litið á bátana sem eru að átta brúttótonna stærð:
Í Grindavík er t.d. Sigurvon ÁR með 11,6 tonn í sjö og af því eru 8,1 tonn ufsi, Sæfari GK 7,5 tonn í sjö, Hrappur GK 7,5 tonn í sjö, Grindjáni GK 6,4 tonn í sex og Þórdís GK 5,2 tonn í fimm.
Í Sandgerði er t.d. Arnar ÁR með 11 tonn í átta og af því er ufsi 4,4 tonn, Snorri GK 9,6 tonn í sjö róðrum en það má geta þess að á Snorra GK er Gísli skipstjóri sem var áður skipstjóri á línubátnum Pálínu Ágústdóttur GK, Sandvík KE 9,3 tonn í átta, Dóri í Vörum GK 8,3 tonn í átta, Dímon GK 8,3 tonn í átta, Séra Árni GK 7,6 tonn í sex, Sigurörn GK 7,5 tonn í átta, Hadda HF 7,4 tonn í sjö, Kvika KE 7,1 tonní sjö, Stakasteinn GK 7 tonn í átta, Fagravík 6,9 tonn í sjö og Óskar KE 6.9 tonn í níu.
Nokkuð merkilegt er að stór hluti af færabátunum sem eru að landa í Sandgerði, og þá er ég að tala um strandveiðibátana, hafa náð yfir einu tonni í róðri og sumir nokkuð langt yfir það – og er það þá aukaaflinn sem er að hjálpa til með það. Arnar ÁR er t.d. mest með 2,3 tonn, Snorri GK 2,1 tonn, Dóri í Vörum GK 1,6 tonn, Dímon GK 1,7 tonn, Séra Árni GK 1,6 tonn, Hadda HF 1,9 tonn, Kvika KE 1,7 tonn, Binna KE 1,6 tonn, Faxi GK 1,5 tonn, Líf NS 1,4 tonn, Kiddi GK 1,1 tonn og Gullfuglinn GK 1,6 tonn.
Núna á strandveiðunum, eins og hefur verið undanfarin ár, hafa langflestir bátanna verið á svæði A sem nær frá Akranesi og að Vestfjörðum. Þar hafa bátarnir alltaf náð skammtinum sínum en eru að langmestu leyti með þorsk en mjög lítinn aukaafla.
Á svæði D sem nær frá Akranesi, að Suðurnesjum og austur að Hornafirði hafa aftur á móti aflahæstu strandveiðibátarnir verið út af aukaaflanum sem þeir hafa náð og þeir hafa líka verið með svipað eða meira aflaverðmæti en bátarnir á svæði A, enda er verð á ufsa mjög gott á mörkuðum. Miðað við nýjustu tölur sem ég hafði þegar ég skrifaði þennan pistil þá var slægður ufsi á 221 krónur kílóið og óslægður ufsi á 163 krónur kílóið. Til að mynda með Arnar ÁR sem er á strandveiðum þá er aflaverðmætið hjá honum, bara fyrir ufsann, um 750 þúsund krónur núna í júní. Séra Árni GK er með um 3,2 tonn af ufsa og er því ufsaaflaverðmætið hjá honum um 530 þúsund krónur núna í júni.