Vel veiðist við Suðurnes
Það lítur nú út fyrir það að nægur fiskur sé í sjónum utan við Suðurnesin. Línubátarnir voru að mestu leyti utan við Grindavík fyrstu daganna í apríl en færðu sig út fyrir Sandgerði og þar hefur líka verið ansi góð veiði.
Reyndar er smá munur á þessum tveimur miðum. Utan við Grindavík hafa verið mjög margir togarar á veiðum, t.d. 29 metra togararnir Vörður ÞH og Áskell ÞH sem báðir hafa komist í 99,5 tonn í einni löndun, Vörður ÞH hefur landað 279 tonnum í þremur löndunum og Áskell ÞH 284,5 tonnum í þremur löndunum. Auk mun fleiri 29 metra togara þá hafa stærri togararnir líka verið á veiðum þarna utan við Grindavík og Þorlákshöfn. Aftur á móti hafa stóru netabátarnir Þórnes SH og Jökull ÞH verið á veiðum utan við Sandgerði sem og stóru línubátarnir frá Snæfellsnesinu, Rifsnes SH, Örvar SH og Tjaldur SH. Tjaldur SH er t.d. kominn með 190 tonn í þremur löndunum núna í apríl og Örvar SH 145 tonn í tveimur.
Af minni bátunum þá má nefna að Hafrafell SU er með 117 tonn í níu löndunum og mest 22,5 tonn í einni löndun, Sandfell SU 112,2 tonn í níu og mest 16,9 tonn, Kristján HF 87 tonn í sjö og Gísli Súrsson GK 80 tonn í átta.
Talandi um netabátana þá er Erling KE kominn með 150 tonn í níu róðrum og mest 33 tonn, Grímsnes GK 65 tonn í sjö, síðan hefur Saxhamar SH verið í netarallinu en hann var með Faxaflóann og svæðið frá Garðskaga og að Reykjanesi. Þegar Saxhamar SH var á veiðum í Faxaflóanum landaði hann í Reykjavík, þegar hann kom að Reykjanesinu landaði hann í Sandgerði og landaði báturinn þar 114 tonnum í fimm löndunum. Í síðustu veiðiferð bátsins kom báturinn til Sandgerðis og skilaði af sér starfsfólki frá Hafrannsóknarstofnun, sigldi síðan til Rifs og landaði þar 26 tonnum.
Þessi bátur er nú nokkuð vel þekktur á Suðurnesjum því báturinn var lengi gerður út frá Grindavík og hét þá þar Hrafn Sveinbjarnarson GK. Það má geta að þetta nafn, Hrafn Sveinbjarnarson GK, er ennþá á Saxhamri SH því nafnið var logsoðið á bátinn þegar hann var smíðaður og sést ansi vel þótt að báturinn sé fallega grænn í dag.
Þorbjörn ehf. átti Hrafn Sveinbjarnarson GK og átti fyrirtækið reyndar þrjá báta sem allir hétu þessu nafni. Voru þeir Hrafn Sveinbjarnarson GK, Hrafn Sveinbjarnarson II GK og Hrafn Sveinbjarnarson III GK.
Þessi bátur fékk síðan nafnið Sigurður Þorleifsson GK þar til að hann var seldur í burtu frá Grindavík árið 1994, Saxhamarsnafnið fékk svo báturinn árið 2006.