Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Veiðin hjá bátunum búin að vera góð þrátt fyrir brælutíð
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 19. janúar 2024 kl. 06:04

Veiðin hjá bátunum búin að vera góð þrátt fyrir brælutíð

Já, síðasti pistill endaði á þeim orðum að það yrði nú ekki mikið um aflatölur út af brælutíð. En náttúran er í miklu aðalhlutverki núna á Reykjanesskaganum. Jú, það var bræla en til að bæta ofan á það þá hófst eldgos rétt við Grindavík og við höfum fylgst með því hversu illa bæði gosið sem og sprungumyndanir hafa farið með Grindavík.

Áður en til þess kom þá höfðu nokkrir stærri bátar landað afla í Grindavík. Til dæmis Sturla GK sem hafði landað þar 100 tonnum í þremur löndunum, Sighvatur GK kom með 153 tonn og Páll Jónsson GK kom með 129 tonn, báðir í einni löndun til Grindavíkur – en þar með er það upptalið. Valdimar GK hefur landað í Hafnarfirði og hefur landað þar 134 tonnum í tveimur róðrum en báturinn var við veiðar inni í Faxaflóanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Annars er veiðin hjá bátunum búin að vera mjög góð og meira segja færabátarnir hafa eiginlega mokveitt. Til að mynda hefur Dímon GK landað um 4,5 tonnum í þremur róðrum og af um 2,1 tonn í einni löndun, sem telst nú vera mjög gott miðað við janúarmánuð. Hafdalur GK kom með um 1,8 tonn í einni löndun, Guðrún GK um 1,5 tonn í einni löndun og Agla ÁR tæp þrjú tonn í þremur löndunum. Allt eru þetta bátar sem eru að eltast við ufsann við Reykjanesið og Eldey.

Línubátarnir hafa líka veitt mjög vel og hafa þeir verið með línuna svo til meðfram ströndinni frá Sandgerði og áleiðis að Stafnesi. Margrét GK er langhæst af bátunum, komin með 88 tonn í átta róðrum og mest 17,7 tonn í róðri, Dúddi Gísla GK 36 tonn í fjórum og mest 13,4 tonn í róðri og Sævík GK er með 34 tonn í þremur og mest 12,3 tonn en þegar þessi pistill er skrifaður er Sævík GK kominn til Þorlákshafnar og hefur verið við veiðar út af Þjórsá, eða á svipuðum slóðum og Jón Ásbjörnsson RE hefur verið við veiðar á. Óli í Stað GK er með 33 tonn í fjórum róðrum, Hulda GK 47 tonn í sex róðrum. Allir þessir bátar eru að landa í Sandgerði. Aðrir bátar eru t.d. Gulltoppur GK með 22 tonn í fjórum róðrum frá Siglufirði, Vésteinn GK 70 tonn í fimm róðrum og landar á Hornafirði og Djúpavogi, Gísli Súrsson GK 59 tonn í fimm og Auður Vésteins SU 22 tonn í tveimur, báðir landa í Ólafsvík.

Nokkuð góð veiði er hjá netabátunum og er Addi Afi GK með 17,3 tonn í fjórum róðrum og mest 6,3 tonn í róðri, Sunna Líf GK 11,1 tonn í fjórum og mest 4 tonn, Friðrik Sigurðsson ÁR 83 tonn í ellefu róðrum og mest 16,7 tonn og Erling KE 88 tonn í átta róðrum og mest 23 tonn.

Dragnótabátarnir réru lítið sem ekkert frá því að síðasti pistill var skrifaður og Sigurfari GK er hæstur af bátunum frá Suðurnesjunum, kominn með 49 tonn í fimm róðrum og mest 15,9 tonn í róðri.

Enn sem komið er þá eru dragnótabátarnir einungis þrír en von er á að þeim fjölgi um tvo því undanfarin ár hafa Aðalbjörg RE og Maggý VE stundað dragnótveiðar frá Sandgerði.