Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Veiðin hefur almennt verið góð
Finnbjörn ÍS lítur frekar illa út í slippnum í Njarðvík þessa dagana þar sem búið er að háþrýstiþvo af honum 30 ára lag af málningu. Hann var gerður út í hátt í 25 ár frá Grindavík og hét þá Farsæll GK.
Föstudagur 12. febrúar 2021 kl. 07:44

Veiðin hefur almennt verið góð

Bátunum heldur áfram að fjölga hérna sunnanlands. Þegar þetta er skrifað þá er Hafrafell SU á leiðinni suður á vertíð en þessi bátur er í eigu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og áhöfn bátsins er að nokkru mönnuð sjómönnum frá Sandgerði og Keflavík. Eftir stendur þá að Sandfell SU er eftir fyrir austan en um borð í Sandfelli SU eru skipstjórarnir Örn og Rafn sem eru feðgar, Rafn er sonur Arnar.

Annars eru gríðarlega margir bátar búnir að vera á veiðum á svæðinu frá Reykjanesi og út að Garðskagavita – og telur þetta hátt í 40 til 50 báta þegar mest er. Stór hluti af þessum flota landar í Sandgerði en einnig eru þarna stóru línubátarnir frá Grindavík sem og 29 metra togbátar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Veiðin hefur almennt verið mjög góð hjá bátunum og má nefna að í Grindavík lönduðu fjórir línubátar alls 553 tonnum. Páll Jónsson GK 128 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK 137 tonn, Sighvatur GK 139 tonn og Valdimar GK 150 tonn í tveimur og þar af 117 tonn í einni löndun. Allir þessir bátar voru á veiðum þarna fyrir utan.

Af flotanum sem hefur verið að landa í Sandgerði þá er Óli á Stað GK hæstur með 44 tonn í sex, Auður Vésteins SU 37 tonn í fjórum, Sævík GK 33 tonn í fimm, Daðey GK 31 tonn í fjórum, Jón Ásbjörnsson RE 30 tonn í fjórum, Kristján HF 27 tonn í tveimur, Dóri GK 26 tonn í tveimur, Margrét GK 25 tonn í þremur, Gísli Súrsson GK 22 tonn í tveimur, Vésteinn GK átján tonn í tveimur, Hópsnes GK fimmtán tonn í tveimur og þar af ellefu tonn í einni en þessi bátur rær með bala, hinir allir eru með beitningavél.

Netaveiðin er búin að vera góð, Erling KE er kominn með 51 tonn í fjórum, Grímsnes GK 50 tonn í fjórum, Maron GK 46 tonn í fimm, Langanes GK sextán tonn í fjórum, Hraunsvík GK ellefu tonn í tveimur og Þorsteinn ÞH níu tonn í tveimur, allir að landa í Sandgerði.

Enn sem komið er hefur engið færabátur landað í Sandgerði en í Grindavík lönduðu þar tveir handfærabátar, Grindjáni GK og Sigurvon RE. Þegar líður lengra á febrúar mun færabátunum fjölga og til dæmis þá fór Gosi KE frá Njarðvík til Sandgerðis sama dag og þessi pistill var skrifaður en hann rær með handfæri og mun fljótlega fara í sinn fyrsta róður á færin.

Mjög rólegt er yfir veiðum dragnótabátanna því þeir eru aðeins tveir á veiðum núna, Siggi Bjarna GK og Sigurfari GK. Benni Sæm GK er í slipp í Njarðvík en verið er að mála hann í nýju litunum hjá Nesfiski, Benni Sæm GK var eini báturinn sem eftir var í flotanum hjá Nesfiski sem átti eftir að fá nýja útlitið. Sömuleiðis er Aðalbjörg RE ekki komin á veiðar en undanfarna vetur hefur Aðalbjörg RE róið frá Sandgerði yfir veturinn.

Í Njarðvíkurslipp núna er þar Benni Sæm GK inni í húsinu en utan við húsið er bátur sem margir Suðurnesjamenn þekkja mjög vel. Sá bátur var gerður út í hátt í 25 ár frá Grindavík og hét þá Farsæll GK. Núna heitir þessi bátur Finnbjörn ÍS og lítur hann frekar illa út í slippnum í Njarðvík því búið er að háþrýstiþvo alla málningu af bátnum. Útgerðaraðilar Finnbjörns ÍS létu hreinsa alla málningu af bátnum en komið var um 30 ára lag af málningu á bátinn og verður hann síðan tekinn inn í hús og málaður í gula litnum sem Finnbjörn ÍS er með. Síðan fer hann til Sandgerði og mun róa þar þangað til hann fer vestur til Bolungarvíkur.

Talandi um línubátana sem minnst er á að ofan þá eru flestir bátanna sem róa á línu frá Suðurnesjum gerðir út með beitningavél en það eru líka bátar sem eru gerðir út á bölum, t.d Addi Afi GK, Guðrún Petrína GK, Gulltoppur GK og Hópsnes GK.

Núna er nýr útgerðaraðili kominn með báta í Sandgerði og honum vantar menn og konur sem geta beitt. Beitt er í Sandgerði í Rauða húsinu sem er neðan við Vitann í Sandgerði – og fyrir þá sem hafa áhuga á að fara í beitningu er símanúmerið 771-7609 og heitir hann Axel sem gerir út bátana Gjafar GK og Nýja Víking NS.