Veiði loksins hafin á elstu línumiðum landsins
Tíminn líður áfram. Við erum úna að detta í miðjan október og smá gleðiefni í gangi því núna eru loksins komnir bátar á veiðar á línu við Suðurnesin á miðum sem má segja að séu ein elstu línumið íslands.
Þá er ég þá að tala um miðin útaf Sandgerði en sögu þessara miða má rekja meira en hundrað ár aftur í tímann. Til að mynda má fara aðeins í söguna og nefna að fyrirtækið Brim ehf. sem áður hét Grandi hf. á nú að hluta til ættir að rekja til Sandgerðis. Það er nefnilega þannig að Grandi var sameinað Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi og það fyrirtæki tók yfir Miðnes hf. í Sandgerði og lagði það fyrirtæki niður með gríðarlegum atvinnumissi fyrir Sandgerðinga sem og að mjög stór kvóti hvarf út byggðarlaginu.
Þegar Haraldur Böðvarsson hóf útgerð sína árið 1906 fór hann snemma með bátana sína til Sandgerðis og lét þá róa þaðan til línuveiða á miðunum þar fyrir utan. Haraldur Böðvarsson reisti nokkur fiskvinnsluhús í Sandgerði og árið 1942 selur hann húsin og reksturinn til bræðranna Ólafs og Sveins Jónssona og þeir ásamt Axel Jónssyni stofnuðu saman fyrirtækið Miðnes HF.
Samhliða þessu voru mjög margir bátar gerðir út frá t.d Keflavík á línu og þeir fóru líka út á þessi mið útaf Sandgerði og svo var Guðmundur á Rafnkelsstöðum í Garðinum líka með báta í Sandgerði, t.d Víðir II GK. Kannski fer ég nánar í þessa sögu í seinni pistlum.
Núna 100 árum síðar eru nokkrir bátar byrjaðir á línuveiðum á þessi sögufrægu miðum og óhætt er að segja að það byrji mjög vel. Þrír bátar hafa verið á línuveiðum og von er á þeim fjórða frá Skagaströnd núna þegar þessi pistill kemur út.
Þeir bátar sem hafa verið að róa eru Katrín GK sem hefur landað alls um þretttán tonnum í þremur róðrum og mest tæp sex tonnum í einni löndun. Addi Afi GK sem hefur landað sautján tonnum í þremur róðrum og þar af sjö tonnum í einni löndun og Gulltoppur GK sem hefur landað fjórtán tonnum í þremur róðrum og mest um 6,5 tonnum.
Þetta er ansi góður afli og eins og ég hef oft skrifað um hérna í þessum pistlum þá þarf nú engan stærðfræðing til þess að reikna út að svona veiði margborgar sig miðað við að fá sama afla fyrir norðan eða austan með tilliti til flutningskostnaðar.
Reyndar er þorskurinn í litlu magni en á móti er mikið af ýsu og löngu.
Já og fjórði báturinn sem kemur heitir Sigrún GK og er það gamli Addi Afi GK. Von er líka á að Guðrún Petrína GK komi suður en hún fór til Skagastrandar og hefur landað þar 3,5 tonnum í einni löndun.
Reyndar fóru handfærabátarnir Ragnar Alfreðs GK og Margrét SU líka í Húnaflóann en ekki er nú hægt að segja að þeir hafi fiskað mikið þar, Ragnar Alfreðs GK með 2,1 tonn í tveimur róðrum og Margrét SU þrjú tonn í þremur róðrum.
Reyndar eru nú ekki margir handfærabátar að róa frá Suðurnesjunum núna en þeir fóru nokkrir á sjóinn um síðustu helgi en þegar þessi orð eru skrifuð þá var ekki vitað um aflann hjá þeim. Þeir bátar sem fóru á sjó voru Grindjáni GK, Þórdís og Sæfari GK frá Grindavík og Steini GK frá Sandgerði.
Margrét GK sem var fyrir norðan hefur fært sig til Austurlands og þar er reyndar meira af þorski en hérna fyrir sunnan. Þó svo að veiðin sé nú ekkert sérstök hefur báturinn landað 39,5 tonn í sjö róðrum og mest tólf tonnum í einni löndun, meðaltal 5,6 tonn í róðri.
Ef við lítum aá aðra báta sem eru fyrir austan þá má nefna að Daðey GK er með 37 tonn í sex og mest 9,7 tonn. Auður Vésteins SU er með 32 tonn í átta róðrum eða aðeins 4 tonn í róðri. Þetta er frekar lítill afli. Vésteinn var með 28 tonn í sex róðrum, Óli á Stað GK 20 tonn í fimm á Siglufirði, Sævík GK 19 tonn í fjórum og reyndar er einn af þessum róðrum í Grindavík en þangað kom báturinn með fjögur tonn úr einni löndun.
Að lokum má geta þess að miðin útaf Grindavík hafa nú verið í ansi góðri pásu núna í haust, enda fáir sem enginn bátar þar á veiðum, nú er reyndar breyting þar á, því að Grímsnes GK er kominn á Selvogsbankann án nokkurs félagsskapar og reynir fyrir sér á ufsanum þar.
Um leið og verður vart við meiri þorsk hérna fyrir sunnan þá munu hinir hægt og rólega koma sér suður, allavega lofar hún ansi góðu um framhaldið þessi góða byrjun utan við Sandgerði.