Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Veiði bátanna ágæt þrátt fyrir hrygningarstopp
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 12. maí 2023 kl. 06:08

Veiði bátanna ágæt þrátt fyrir hrygningarstopp

Pistill í síðasta blaði vakti nokkra athygli og ansi margir sendu mér skilaboð með þökkum fyrir flott orð varðandi Grímsnes GK.

Já, það má kannski segja að síðasti pistill hafi hálfpartinn verið minningargrein um þennan fengsæla og farsæla bát sem Grímsnes GK var. Því miður var Grímsnes GK ekki eini báturinn sem brann, því að aðeins fimm dögum síðar brann bátur í Sandgerði sem hét Þristur ÍS. Sá bátur var með skipaskrárnúmer 1527 og var þónokkuð yngri og minni enn Grímsnes GK.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þristur ÍS var smíðaður í Stykkishólmi árið 1979 og var 23,4 metra langur og mældist um 84 tonn að stærð. Saga bátsins hefur að mestu verið bundin við Árskógssand og Patreksfjörð en báturinn var gerður út frá Árskógssandi í um tíu ár og hét þá þar Særún EA og síðan á Patreksfirði þar sem að báturinn hét Brimnes BA og var hann gerður út þar í 23 ár.

Saga bátsins er ekki mikil á Suðurnesjum en þó kom hann nokkuð oft suður á vertíð þegar hann hét Særún EA og réri eitt sinn heila vertíð í Sandgerði og var þá Guðjón Bragason skipstjóri á bátnum. Eftir að báturinn var seldur frá Patreksfirði fór hann að mestu á sæbjúgnaveiðar, þá var skipstjóri á bátnum Jón Ölver Magnússon sem býr í Garðinum og hann kom þá með bátinn nokkuð oft til Sandgerðis. Nýr eigandi var kominn að bátnum sem hafði legið í Hafnarfjarðarhöfn þar sem verið var að gera hann kláran til veiða með dragnót. Allur afturhluti Þrists ÍS er gjörsamlega ónýtur enda var hann að mestu úr áli sem bráðnaði í eldinum og tjónið er ansi mikið því um borð voru til dæmis ný veiðarfæri.

En jæja, ljúkum dapra kaflanum því eins og ég segi alltaf, og hef sagt í mörg ár, að hver bátur hefur sína sögu og sál. Núna er aprílmánuður búinn og jú, þrátt fyrir hrygningarstoppið var nú veiði bátanna ágæt og þá aðallega hjá línubátunum. Minni bátarnir voru að veiðum flestir utan við Grindavík og var veiðin hjá þeim ansi góði. Þeir fóru reyndar líka út fyrir Sandgerði og inn í Faxaflóann og lönduðu þá í Sandgerði.

Fjölnir GK var langaflahæsti línubáturinn í apríl með 554 tonna afla í fimm róðrum, þar á eftir kom Páll Jónsson GK með 454 tonn í fjórum róðrum og Sighvatur GK með 419 tonn í fjórum. Allt eru þetta Vísisbátar og lönduðu þeir allir í heimahöfn sinni, Grindavík. Þar var líka Valdimar GK sem var með 316 tonn í þremur róðrum en Valdimar GK er eini línubáturinn sem Þorbjörn ehf. í Grindavík á og gerir út.

Sóley Sigurjóns GK er komin norður til Siglufjarðar þar sem hún landar rækju sem síðan er ekið til Hvammstanga og unnin þar en mestum hluta af fiskinum er ekið suður til vinnslu, þorskinum til Nesfisks í Garð og öðrum tegundum til Miðness í Sandgerði. Í apríl landaði Sóley Sigurjóns GK alls 190 tonnum í fjórum löndunum og af því var rækja 127 tonn.

Annars er strandveiðitímabilið hafið og vægast sagt mjög margir bátar sem réru fyrstu vikuna, langflestir í Sandgerði og má nefna að einn daginn komu 45 bátar og lönduðu þar. 

Lítum aðeins á strandveiðibátana í næsta pistli.