Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Veðravíti og veðurkvíði
Föstudagur 25. júní 2021 kl. 07:59

Veðravíti og veðurkvíði

Ef það er eitthvað sem við Íslendingar þreytumst ekki á að tala um þá er það veðrið. Ég ólst upp við að hlusta á veðurfréttir Veðurstofu Íslands í Ríkisútvarpinu í botni. Þær glymja enn í hausnum á mér eftir öll þessi ár. Pabbi var sjómaður og veðurfréttir voru eitthvað sem hann missti ekki af. Við Íslendingar tölum mikið um veðrið og veðurspá. Veðurútlit yfir sumartímann er vinsælt umræðuefni í öllum landshlutum. Enda ekkert skrýtið þegar við hýrumst inni við megnið af árinu. Hvernig sumar ætli við fáum í sumar? Veturinn var nú frekar mildur, ætli sumarið verði þá ekki slæmt? Ætli það verði hlýtt fyrir sunnan í sumar, eða ætli Akureyringar fái góða veðrið enn eitt sumarið?

Hef sjálf alltaf verið frekar heitfeng. Alveg frá unga aldri samkvæmt mömmu. Var sett nánast án fata út í vagn til að taka blund og samt alltaf kófsveitt. Ekki eltist þetta af mér. Var samkvæmt sömu heimild „óþolandi ofvirk“ og því alltaf rjóð í kinnum og léttklædd. Alltaf að kafna úr hita, nánast sama hvernig viðraði. Það kemur því ekki á óvart að ég er afar sátt við íslenskt veðurfar. Það hjálpar að ég stunda mikið skíði á veturna og elska því þegar snjórinn lætur sjá sig. En haustið er klárlega minn uppáhalds árstími. Finnst fátt dásamlegra en þegar það fer að rökkva og kólna pínulítið. Kveikja á kertum og baka pönnukökur á sunnudögum. Haustlitirnir eru líka í uppáhaldi, svona eins og forleikur að nýju upphafi. Allt fer aftur í gang eftir sumarið sem aldrei kom og allir biðu eftir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samt erum við svekkt yfir veðrinu ár eftir ár, alveg sama hversu oft við upplifum kalt eða rigningarsamt sumar. Í dag er 22. júní og tveir mánuðir þangað til skólarnir hefjast á nýjan leik. Hitastigið hefur varla skriðið upp fyrir tíu gráðurnar í júní og spáin gerir ráð fyrir svipuðu veðri eins langt og spákúlan nær. Spekúlantar segja að þetta sé af því að veturinn hafi verið of góður. Maður veltir því fyrir sér hvort að  veðurkarma sé raunverulegt.

En þetta veðurfar hentar mér ágætlega því ég er ekki bara heitfeng að upplagi heldur bættist breytingarskeiðið við hjá mér fyrir u.þ.b. fimm árum. Það var nú heldur betur til að gleðja eða hitt þó heldur. Get samt ekki kvartað því skapsveiflurnar sem eiga að fylgja hafa verið í lágmarki (samkvæmt heimilismeðlimum) en ég þarf nánast að vera á stuttbuxum alla daga í tíu gráðunum. Já, ég vil kulda og rok. Sólin má samt alveg láta sjá sig því maður þarf jú að fá sitt D vítamín. Annars getur maður alltaf tekið það í töfluformi eins og við Íslendingar ættum öll að gera. Hættum bara að kvarta yfir veðrinu og klæðum okkur eftir aðstæðum, nú eða ekki. Við verðum að sætta okkur við að við búum á Norðurhveli jarðar, sem betur fer segi ég.

Inga Birna Ragnarsdóttir.