Úthlutanir í engu samræmi við mikla þorskveiði
Þá er þessi rólegi aprílmánuður hálfnaður. Rólegi aðallega út af því að hrygningarstopp er í gangi en því fer að ljúka bráðlega. Aftur á móti er stutt í að strandveiðitímabilið árið 2024 hefjist. Bátarnir mega hefja veiðar í maí og yfir allt landið eru um 800 bátar á þessum veiðum.
Það er krafa frá sjómönnum strandveiðibátanna að þeir fái að veiða í 48 daga en eins og veiðiheimildirnar eru núna og út af því hversu margir bátar munu líklega verða á þessum veiðum má búast við því að þeir fái ekki sína 48 daga.
Förum í smá pælingar. Segjum að 800 strandveiðibátar verði á veiðum og hver þeirra megi veiða um 650 kíló miðað við þorskígildi af kvótabundnum tegundum nema ufsa sem má veiða eins mikið af og er innan þessa tímaramma sem getið er á um í reglugerð, sem eru fjórtán tímar sem bátur má vera á sjó. Þessi afli er um tæp 800 kíló miðað við óslægt og ef 800 bátar fara á sjó og hver bátur nær sínum skammti (sem reyndar er nú ekki alltaf þannig) þá gerir einn mánuður um 7.700 tonn. Eins og er þá er áætlað að um ellefu þúsund tonn af þorski verði í strandveiðipottinum og ef þessi bátafjöldi verður á veiðum og hver nær sínum skammti, lýkur strandveiðinni árið 2024 áður en júlí fer í gang.
Þetta eru nú bara pælingar en undanfarin tvö sumur hafa strandveiðibátar ekki fengið sína 48 daga og iðulega þá skráðu nokkrir bátar sig úr strandveiðikerfinu til þess að geta farið á færaveiðar í ágúst, enda er oft góð færaveiði þá.
Við skulum bara sjá til, í það minnsta hafa sjómenn núna náð að undirbúa báta sína með því að taka þá upp á land, botnhreinsa þá og mála.
Þónokkrir bátar hafa verið í svona hreinsunum í Sandgerði og líka í slippnum í Njarðvík en þar er til dæmis verið að taka botninn á Mána DA 68 í gegn en þessi bátur er stálbátur, um 15 tonn að stærð og var lengi í Bolungavík og hét þá Þjóðólfur ÍS. Stakkavík ehf. í Grindvík átti síðan bátinn og hét hann þá Máni GK 109, undanfarin tíu ár hefur báturinn verið á Húsavík en er núna skráður á Skarðsstöð sem er nú kannski ekki mjög þekkt höfn á Íslandi og spurning hvort margir lesendur þessa pistils viti í raun hvar þessi höfn, Skarðsstöð er.
Saxhamar SH frá Rifi var einn af þeim bátum sem voru í netarallinu en báturinn var með Faxaflóann og út með ströndinni að Reykjanesi. Hann hefur lokið sínum veiðum og gekk nokkuð vel, var með 131 tonn í níu róðrum og um 100 tonnum af því var landað í Sandgerði.
Aðrir netabátar frá Suðurnesjum voru á veiðum áður en hrygningarstoppið hófst og var Erling KE með 50 tonn í fimm róðrum og Halldór Afi GK 9 tonn í þremur.
Reyndar var Friðrik Sigurðsson ÁR, sem Hólmgrímur er búinn að vera með á leigu, líka í netarallinu og var við Suðurströndina og fiskaði 137 tonn í aðeins sex róðrum og mest 37 tonn í einni löndun. Öllum þessum afla var landað í Vestmannaeyjum.
Núna eru semsé þau þrjú röll sem ákvarða kvótaúthlutun hvers árs lokið. Það er haustrallið 2023, togararallið 2024 og netarallið 2024. Verður fróðlegt að sjá hversu mikil aukning verður á útgefnum þorskkvóta næsta fiskveiðiár en síðustu úthlutanir á til að mynda þorski hafa verið í engu samræmi við þá miklu þorskveiði sem er víða um landið og við höfum fengið að fylgjast með í vetur í þessum pistlum.