Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
Í síðasta þætti sagði frá Vatnsleysuskóla en meðal kennara þar var Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn (f. 1915, d. 2002). Varðveist hefur dagbók hennar, rituð í bláa stílabók, varðveitt hjá Minja- og sögufélagi Vatnsleysustrandar.
Hér verðum við margs vísari um fyrsta kennslumánuð Ingibjargar en hún var þá tvítug og nýlega útskrifuð úr Kvennaskólunum í Reykjavík (myndin er tekin löngu síðar).
1934, oktober,
16. þriðjudagur. Setti Vatnsleysuskólann og lét börnin lesa. 12 börn voru mætt sem eiga að stunda nám við skólann í vetur. Kl. 12 kom læknirinn -Sigvaldi Kaldalóns og skoðaði börnin. Ekkert fannst athugavert við heilbrigði þeirra. Ég var líka skoðuð og álitin hraust í lungum.
17. miðvikudagur. Fyrsti kennsludagurinn. Öll börnin voru mætt, og komu vel fram, prúð og stillt. Mér líst yfirleitt vel á þau og hef ánægju af að kynnast þeim og kenna. Ég vildi líka að þau hefðu sem mest not af kennslunni og yrðu þæg og siðprúð og hlýddu mér. Veðrið var vont, úrhellisrigning. Varð gegndrepa á leiðinni heim.
18. fimmtudagur. Öll börnin mætt . Gekk vel að kenna.
19. föstudagur. Öll börnin mætt í skólanum. Dagurinn fór vel fram, gekk allt vel. Varð að ganga heim og líka í gær.
20. laugardagur. Öll börnin voru mætt. Fékk bréf frá Huldu í Hvassahrauni þar sem hún biður um tilsögn í ensku og dönsku. Hitti á leiðinni heim ríðandi mann sem bauð mér að ríða og þáði ég það og er öll skökk á eftir. Við vorum í dag að vonast eftir Fríðu en hún gat ekki komið, en skrifaði með Gvendi og sendi sokka og skó á Lilla. Ég fór suður að Auðnum og hringdi til hennar.
21. sunnud. Var messa. Nokkuð margt við kirkju. Séra Garðar verður hjá okkur í nótt.
22. mánud. Öll börnin mætt. Gekk vel að kenna. Hulda í Hvassahrauni kom og ég setti henni fyrir að læra. Alla í Flekkuvík kom og bað mig að kenna sér réttritun , skrift, reikning og eitthvað í ensku og dönsku. Gekk heim. Mikið norðanrok. Gunni fann rekinn sel í dag, nýdauðan. Hefur sennilega rotast. Hlýddi Díu Yfir. Las með Óla.
23. þriðjud. Öll börnin mætt. Nú er vika síðan ég setti skólann og fór að kenna. Hulda kom og ég hlýddi henni yfir. Alla kom líka. Stína á Vatnsleysu kom utan úr Njarðvíkum í dag og kom til mín og bað mig að kenna sér réttritun og eitthvað í ensku og dönsku. Lét þær allar skrifa stíl, hlýddi Huldu yfir og lét Öllu reikna. Fór heim með Gvendi. Hlýddi krökkunum yfir heima. Í dag er Óli 18 ára.
24. miðvikud. Öll börnin voru mætt í dag. Veðrið er mjög vont, rok og rigning. Stelpurnar gátu ekki komið. Stína fór inneftir í dag.
25. fimmtud. Öll börnin voru mætt. Hulda kom í tíma.
26. föstud. Öll börnin mætt. Gekk vel. Stína og Alla komu í tíma.
27. laugard. Gaf frí. Fyrsti vetrardagur. Fór inneftir með Díu. Hún lét skoða sig. Á að láta taka úr sér allar tennurnar. Fórum til Þórðar Þórðarsonar læknis.
28. sunnud. Vorum hjá Ingvari í nótt. Fórum suður með Gvendi. Ingvar sendi pabba skrifborð.
29. mánud. Öll börnin mætt. Allar stelpurnar komu í tíma. Fer alltaf heim með Gvendi á kvöldin. Er ekki búin að kenna fyrr. Kenni stelpunum frá 3 til 5.
30. þriðjud. Öll börnin mætt. Pabbi fór inneftir og Óli hann ætlaði að reyna að fara á Flensborg. Allar stelpurnar komu.
31. miðvikud. Öll börnin mætt nema Jónas ekki fram að hádegi, fór fyrir foreldra sína sendiferð. Allar stelpurnar komu. Pabbi hringdi til mín um matinn og sagði að Óli gæti ekki orðið innfrá hann kom suður í kvöld.
Dagbókin nær með líku sniði fram að jólafríi en hér verður látið staðar numið.