Upp hefur komið tilfelli um njálg …
Eftir tuttugu ára samfellda skólagöngu þriggja barna stóð mamma uppi sem sigurvegari í baráttunni gegn njálgum og lúsum. Ekki eitt einasta sníkjudýr hafði náð að festa sig í neinu barnanna og þar sem yngsta barnið var nú komið í 10. bekk gat hún loks andað léttar. Hins vegar höfðu önnur dýr komið og farið á þessum tíma og má þar nefna hunda, ketti, páfagauka, naggrísi, hamstra, fiska og kanínur. En njálg og lús höfðum við ekki séð, ónei.
Það var því eflaust mikil skellur þegar undirrituð fékk njálginn þremur dögum fyrir útskrift úr grunnskóla. Ekki nóg með það að stutt væri í útskrift heldur var unga daman nýbúin að eignast sinn fyrsta kærasta, sjálfan Rómeó á rauða hestinum og Júlía var komin með njálg! Samkvæmt Disney voru prinsessur heldur ekki með orma í rassinum og því hélt hin sextán ára ég að þarna væri lífið búið, ævintýrinu lokið um leið og það byrjaði. Grátbólgin og skömmustuleg tilkynnti ég honum tíðindin á milli ekkasoganna.
Ekki nóg með það, því á þessum tíma bjuggu bæði systkini mín heima með mökum sínum í hálfgerðu millibilsástandi. Það þýddi að heilar átta manneskjur þurftu að taka inn njálgatöflurnar. Verst fannst okkur þó að þurfa að þrífa herbergin hátt og lágt en eflaust hefur ýmislegt komið í ljós við þrifin í unglingaherbergjunum sem var enn verra en njálgurinn.
Tveimur vikum síðar var svo boðið upp á seinni skammtinn, samkvæmt læknisráði, í matarboði hjá mömmu. Lambasteikin var lögð á borðið ásamt meðlætinu og í forrétt var Vermox njálgalyf. „Gjössovel. Gjössovel. Gjössovel,“ sagði mamma á meðan hún gekk með pilluspjaldið og gaf hverju okkar eina töflu í útréttan lófann. Unglingurinn, með þykkt lag af meiki og ofplokkaðar augabrúnir, sökk enn lengra niður í sætið og hugsaði með sér hvort ekki hefði verið betra að hræra þetta beint út í sósuna og sleppa þannig við skömmina.
Ekki hafði ég verið mikið fyrir skordýrin áður og höfðu mín viðbrögð ætíð verið að reyna forða mér í burt sem fyrst þegar kvikindin urðu á vegi mínum. En þegar njálgurinn er annars vegar er hvorki hægt að fela sig né flýja, hann er nefnilega afar fylgið sníkjudýr rétt eins og lúsin. Því vil ég nýta tækifærið og senda hugheilar kveðjur til allra þeirra foreldra og barna sem fá slíka vágesti í heimsókn.