Twenty twenty won
Ég er klárlega ekki í markhópi þeirra sem horfir á TikTok öllum stundum. Fyrir þá lesendur sem vita ekki vita hvað TikTok er þá verða þeir bara að gúggla það. Sem árvökul móðir tveggja ungra kvenna sem eru mjög virkir notendur þessa miðils er ég auðvitað komin með aðgang þar til þess að geta fylgst með. Það getur verið áhugavert að gleyma sér við það að horfa á það sem fólk víðsvegar að er að birta þarna inni. Eitt af því sem ég hnaut oft um eftir áramótin var einmitt það sem fékk mig til þess að staldra við og er efni þessa pistils.
Twenty twenty won (lesist 2021) er það ár sem við mannfólkið tökum fagnandi á móti eftir þær hörmungar sem dundu á okkur á síðasta ári. Árið sem allt á að verða betra. Árið sem allt á að verða venjulegt aftur. Aldrei aldrei hef ég orðið vitni að öðru eins gamlárskvöldi, ljósadýrð í flugeldum lýstu upp himininn og á sama tíma skall á myrkvuð og reykjarmett þokan. Við Íslendingar settum met í flugeldakaupum og kepptumst við að sprengja þetta ár í loft upp. Ár sem leikið hefur okkur illa, eins og komið hefur ítrekað fram í fjölmiðlum. Bráðsmitandi Covid hefur haft þau áhrif að efnahagur landa hefur aldrei verið verri, heimilisofbeldi hefur aukist til muna, skilnuðum hefur fjölgað og síðast en alls ekki síst hefur veiran dregið tæpar tvær milljónir jarðarbúa til dauða. Fordæmalausir tímar. Öll vitum við þetta og meira til en í upphafi nýs árs langar mig til þess að horfa á hina hliðina á peningnum – og þá kemur að því sem titill pistilsins vísar í og TikTok notendur kepptust við að birta; Twenty twenty won eða 2020 vann! Hvaða skilaboð eru það að árið 2020 hafi unnið? Það er jú ansi margt sem breyttist í okkar eðlilega lífi sem fékk mann til þess að horfa á þessa fordæmulausu tíma út frá öðru sjónarhorni og endurmeta marga hluti. Við vörðum meiri tíma inn á heimilinu og með „kúlunni“ okkar. Það hefur auðvitað reynt meira á alla en á sama tíma hafa tengslin styrkst og okkar allra nánasta „kúla“ er orðin ennþá nánari og tengslin sterkari. Þessi þvingaða samvera hefur neytt okkur til að vera umburðarlyndari við hvert annað. Tengsl okkar við náttúruna og okkar nærumhverfi hafa sjaldan verið meiri. Íslendingar hafa stundað útivist og hreyft sig utandyra sem aldrei fyrr í skugga lokana á skipulögðum líkamsræktarstöðum. Við þurfum að sækjast sérstaklega eftir félagsskap annarra í raunheimi og spakmælið „maður er manns gaman“ úr Eddukvæðum hefur öðlast nýja og dýpri merkingu fyrir okkur. Já, þetta er ekki alslæmt eftir allt. Svo hefur losun gróðurhúsalofttegunda snarminnkað í þokkabót.
Ekki misskilja mig. Ég sakna þess að faðma fólk utan „kúlunnar“, geta ekki stundað mitt yoga utan heimilisins, félagslegra samskipta og alls hins sem er of langt mál að telja upp en allir vita hvað ég á við. En hvernig sem á það er litið þá höfum við, sem og heimurinn allur, haft gott af því að líta okkur nær og jafnvel inn á við. Kannski verður heimurinn betri eftir 2020 og það verði 2021 sem hafi vinninginn að lokum?