Toppurinn að vera í teinóttu
Í fréttum síðustu misseri hefur mikið verið rætt um Ísland og tísku. Hver man ekki eftir því þegar allir og amma þeirra voru á leiðinni til Íslands að bera hið undurfagra land okkar augum? En svo er það nú eins og með flíkurnar sem við kaupum okkur sí og æ að þær fylgja hinni svokölluðu hraðtísku, rétt eins og Ísland virðist hafa gert á sínum tíma og er nú því miður á hraðri niðurleið.
En hvað veldur? Landið sem slíkt hefur lítið sem ekkert breyst. Við getum enn státað okkur af fossunum okkar fjölmörgu, glitrandi norðurljósunum, eindæma eldgosum og listfengnu landslaginu. Svo ekki er það nú ástæðan.
Ætli það sé veðráttan? Erlendu ferðamennirnir hafa kannski látið það berast að hér búi veðurguðirnir allir sem einn og beiti kröftum sínum hver í kapp við annan. Á sama deginum er því allt eins hægt að eiga von á sólskini og blindbyl, austan stormi og logni. Sjaldnast þó logni. Á ferð minni um Reykjanesbrautina fyrir stuttu mætti ég kampakátum ferðamanni á fótknúnu hlaupahjóli. Hann lét vindinn um eyrun þjóta og brunaði upp í mót með bakpokann á öxlunum eins og enginn væri morgundagurinn. Flestir ferðabræður hans stíga þar að auki beint inn í komusalinn í splunkunýjum vindjökkum, brakandi fjallgönguskóm og með alpahúfuna langleiðina ofan í augun. Nei, ætli það sé nokkuð veðrið ...
En gæti ástæðan kannski verið sú að við höfum gleymt okkur í græðginni? Rándýr rúnstykkin og fokdýru samgöngurnar? Átti aumingja maðurinn á hlaupahjólinu kannski bara ekki fyrir rútumiðanum? Seljum þeim lopa og lakkríslengjur í stappfullum lundabúðum og pylsur á þéttsetnum bensínstöðvum, allt saman á þreföldu kostnaðarverði! Svo ekki sé talað um þegar við hrúgum þeim eins og kindum í smölun á alla vinsælustu ferðamannastaðina og krossum fingur að aurarnir rati í kassann. Það er nefnilega fátt betra en að fá að njóta augnabliksins og upplifa undur heimsins í kyrrð og ró. Þegar við hjónin ferðuðumst til Rómar röltum við niður að Trevi gosbrunninum í dögun og skoðuðum Colosseum á miðnætti. Þvílík fegurð. Þessi tvö augnablik voru án efa hápunktar ferðarinnar.
Á sama tíma og við reynum að lokka fólk til landsins hrekjum við það burtu með verðlaginu og græðginni. Ég held að það sé nokkuð ljóst að Ísland er ekki að detta úr tísku, við erum að detta úr tísku. Það er ekki alltaf toppurinn að vera í teinóttu.