Tímamót
Nýtt ár er gengið í garð og óhætt er að segja að árið 2019 hafi verið smá lendingar-ár því eftir stöðuga uppsveiflu í hagkerfinu lækkaði flugið á flest öllu en fyrst og mest auðvitað í ferðaþjónustunni. Óhætt er að segja að það sé nokkuð bjartara framundan í upphafi nýs árs þó svo ekki sé verið að horfa á enn meiri aukningu í komu ferðamanna á nýju ári en þessi grein hefur mikil áhrif á samfélagið á Suðurnesjum og á Íslandi.
Þrátt fyrir samdrátt má víða sjá vöxt og uppgang á Suðurnesjum, m.a. í ferðaþjónustunni. Á þriðja hundrað ný hótelherbergi verða tekin í notkun og er óhætt að segja að með því og almennt séð, séu Suðurnesjamenn að gera sig meira gildandi í ferðaþjónustunni. Huga þarf að meiri kynningu á Suðurnesjum sem áningarstað og lengja dvöl ferðamanna sem ákveða að gista á svæðinu. Ljóst er að framboð afþreyingar er alltaf að aukast en náttúran er auðvitað það sem dregur flesta ferðamenn um svæðið.
Ef við lítum yfir mannlífið þá er það okkur sönn ánægja hjá Víkurfréttum að greina frá Suðurnesjamanni ársins 2019 í öllum okkar miðlum í þessari fyrstu viku ársins en það er hinn ungi og bráðefnilegi Már Gunnarsson, sundkappi og tónlistarmaður. Það er með hreinum ólíkindum hvað drengurinn er magnaður og það gleymist hreinlega stundum að hann er blindur. Þetta er í þrítugasta skipti sem Víkurfréttir velja Mann ársins á Suðurnesjum en í fyrra varð Guðmundur R. Magnússon, sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, fyrir valinu.
Síðar á þessu ári verða fjörutíu ár síðan Víkurfréttir komu fyrst út, þann 14. ágúst næstkomandi. Víkurfréttir er einn elsti bæjar- og héraðsfréttamiðill landsins og einn sá öflugasti. Enginn annar fjölmiðlill á landsbyggðinni sinnir fjölmiðlun eins og Víkurfréttir gerir í þremur stórum þáttum; í fréttablaði, á vef og í sjónvarpi. Á síðasta ári gerðum við 50 sjónvarpsþætti sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Hringbraut (sem nær til allra landsmanna), á Víkurfréttavefnum, vf.is og hjá Kapalvæðingu í Reykjanesbæ. Við gáfum út 48 tölublöð af Víkurfréttum og blaðsíðurnar urðu rétt rúmlega eitt þúsund. Fréttir og innslög á Víkurfréttavefnum voru rétt tæp þrjú þúsund á árinu 2019. Við munum rifja upp úr 40 ára Víkurfréttasögunni á afmælisárinu með ýmsum hætti.
Um leið og við þökkum Suðurnesjamönnum, fyrirtækjum og einstaklingum fyrir frábært samstarf á síðasta ári vonumst við til að það megi halda áfram því án aðstoðar heimamanna við svona fjölmiðlun væri þetta ekki hægt.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.
Páll Ketilsson,
ritstjóri Víkurfrétta.