Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Þurfti að skilja um sex þúsund króka eftir í sjónum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 26. janúar 2024 kl. 08:33

Þurfti að skilja um sex þúsund króka eftir í sjónum

Jæja, lífið heldur áfram þrátt fyrir eldgos og sprungumyndanir á Reykjanesskaganum. Núna er nokkuð vel liðið á janúarmánuð og veiðin hjá bátunum er búin að vera nokkuð góð.

Margir bátar hafa verið við veiðar utan við Sandgerði og er þá ekki bara verið að tala um bátana sem landa í Sandgerði heldur líka báta frá Snæfellsnesi, línubátana frá Grindavík og 29 metra togara fá Grundarfirði og Vestmannaeyjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stóru netabátarnir tveir eru búnir að færa net sín yfir á svæði utan við Stafnes og Hafnir og hefur veiðin hjá þeim verið nokkuð góð. Friðrik Sigurðsson ÁR er kominn með 98 tonn í sextán róðrum og Erling KE með 141 tonn í þrettán róðrum.

Reyndar vekur nokkra athygli að báðir þessir stóru netabátar eru með netin sín svo til á svipuðum slóðum en Erling KE kemur og landar í Sandgerði, sem er stutt sigling, en Friðrik Sigurðsson ÁR siglir alla leið til Njarðvíkur til þess að landa, er það um þriggja tíma sigling. Addi Afi GK er með 17,4 tonn í fjórum róðrum og Sunna Líf GK 12 tonn í þremur.

Mjög góð veiði hefur verið hjá línubátunum og er Margrét GK komin með 143 tonn í tólf róðrum og mest 18 tonn í róðri, Sævík GK er með 57 tonn í fimm róðrum en báturinn landað núna síðast í Þorlákshöfn, Óli á Stað GK 62 tonn í sex, Dúddi Gísla GK 58 tonn í sex, Gulltoppur GK 24 tonn í fjórum en hann landar á Siglufirði og Hulda GK 68 tonn í átta róðrum.

Stærri bátarnir hafa verið að landa í Þorlákshöfn og Hafnarfirði og til Þorlákshafnar kom Páll Jónsson GK með fullfermi, eða 183 tonn sem fékkst á um 173 þúsund króka. Uppreiknað á bala gerir þetta um 450 kg á bala. Þessi risalöndun hjá bátnum er ein allra stærsta einstaka löndun línubáts á Íslandi sem er ekki að frysta aflann um borð en báturinn var við veiðar á Meðallandsbugt. Báturinn gat meira segja ekki dregið alla línuna því það var allt orðið kjaftfullt í honum af fiski og þurfti að skilja eftir um sex þúsund króka í sjónum.

Mjög sjaldgæft er að stóru línubátarnir þurfti að skilja eftir króka í sjónum því vanalega hafa þeir pláss til þess að koma fiskinum í bátinn en í þessum risa- og metróðri hjá Páli Jónssyni GK var bara allt orðið fullt af fiski og ekki pláss fyrir meira – en Páll Jónsson GK er kominn með 312 tonn í tveimur löndunum, Sighvatur GK 300 tonn í tveimur og Valdimar GK 292 tonn í þremur löndunum.

Hjá togurunum er Jóhanna Gísladóttir GK með 278 tonn í fjórum löndunum, Sóley Sigurjóns GK 269 tonn í tveimur löndunum, Sturla GK 210 tonn í fimm, Pálína Þórunn GK 202 tonn í fimm, Vörður ÞH 184 tonn í fjórum og Áskell ÞH 112 tonn í tveimur löndunum. Togararnir hafa landað víða en þó mest í Hafnarfirði.

Vegna þess sem er í gangi í Grindavík má segja að Hafnarfjörður sé orðinn heimahöfn nokkurra báta og togara sem vanalega landa í Grindavík.