Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Þegar maður kaupir grill
Laugardagur 30. maí 2020 kl. 07:55

Þegar maður kaupir grill

Það var brakandi blíða síðustu helgi en fjölskyldan mín bað um eitthvað gott á grillið í tilefni þess. Að sjálfsögðu datt mér ekki annað í hug en að verða við þeirri beiðni enda hata ég ekki beint grillmatinn sjálfur eins og sjá má á vexti mínum. Þar sem gamla grillinu mínu hafði verið keyrt upp í Kölku í vikunni á undan þá voru góð ráð dýr.

Ég fór að leita að nýju grilli á vefnum og sá eitt ansi álitlegt hjá Heimkaup.is sem ég ákvað svo að falast eftir. Hringdi í þjónustuverið og mér var tjáð að grillið væri til á lager og þar að auki gæti ég fengið það sent samsett upp að dyrum og það samdægurs! Vá þetta hljómaði vel enda nennti ég ekki að fara að setja þetta saman, nýbúinn að henda upp trampólíni fyrir drengina. Ég fór því á vefinn, pantaði grillið og hugsaði mér gott til glóðarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinnipart föstudagsins var svo þessu fína grilli skutlað til okkar upp að dyrum, samsett en því miður var það ekki grillið sem ég hafði pantað. Reyndar örlítið veglegra grill en ég lét auðvitað vita og óskaði eftir því að það yrði sótt og mitt grill afhent. Ekki hefði heyrst stuna frá mér hefðu þeir skutlað til mín flaggskipinu sínu með sex brennurum – það hefði reyndar verið kærkomin búbót fyrir mann í uppsögn! Á laugardeginum viðraði svo ennþá betur, blíðan á pallinum var slík að raunhæfur möguleiki var á því að borða kvöldmatinn úti. Sá fyrir mér steikina í hillingum undir berum himni. Taka tvö, nýtt grill mætti svo seinnipartinn á laugardeginum, ég reyndar staddur í Nettó að versla á grillið. Kem heim, spenntur og klár í veislu en nei þá var aftur búið að afhenda rangt grill. Í þetta sinn tæki ég sem vildi alls ekki fá (mun ódýrara)! Dó þó ekki ráðalaus og fékk lánað grill hjá góðum félaga, því það var veður fyrir grillmat og því tækifæri átti alls ekki að sóa. Allt er þegar þrennt er og eftir helgina fékk ég svo loksins afhent rétt grill. Týnda grillið komið heim. Gamli mjög sáttur og hlakkar mikið til þess að prófa grillið, svona þegar það hættir að rigna um miðjan júní. Hið ágæta starfsfólk Heimkaupa var afar hjálpsamt og í stað þess að reyna að klóra aumingjalega yfir mistök sín þá voru þessi mál tækluð á virkilega faglegan hátt.

Á endanum allir sáttir. Við gerum jú öll mistök spyrjið bara Bernhard Zangerl, vertann á skemmtistaðnum Kitzloch á austurríska skíðasvæðinu Ischgl. Get svo ekki beðið eftir þeim degi þegar maður getur grillað steikurnar á pallinum með andrúmsloftinu frá kannabisverksmiðju Madda Vill í kringum sig ... þá mætti afhenda mér rangt grill daglega.

Örvar Þór Kristjánsson.