Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Þegar keppt var um að vera aflakóngur á vetrarvertíð
Föstudagur 14. maí 2021 kl. 07:03

Þegar keppt var um að vera aflakóngur á vetrarvertíð

Þá er vetrarvertíðinni árið 2021 formlega lokið. 11. maí telst vera lokadagur vetrarvertíðar og þó svo að þessi dagur sé ekki eins hátíðlegur og áður þá eru sjómenn áhugasamir um að vera á báti sem veiðir meira en næsti bátur.

Það var nefnilega þannig að á árunum frá u.þ.b. 1940 og fram undir 1990 var oft keppni hjá skipstjórum og áhöfnum báta fram á síðasta dag um hver myndi verða aflahæstur og bæði í Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum var afhentur bikar handa þeim báti og áhöfn sem var aflahæstur á vetrarvertíð. Svipað var í gangi í höfnum á Suðurnesjum þó svo að ekki hafi verið afhentur bikar fyrir þá sem voru aflahæstir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það má þó geta þess að bæði í Grindavík og í Sandgerði eru nöfn skipstjóra og báta yfir aflahæstu báta á vertíð. Í Grindavík er staðsettur platti inni á kaffihúsinu Bryggjunni en þar er hægt að sjá ártal, nafn skipstjóra og báts.

Í Sandgerði er uppi á lofti á Þekkingarsetri Suðurnesja, sem áður var Fræðasetrið, stór steinn og í hann eru grafin ártal, nöfn skipstjóra, bátsnafn og afli viðkomandi báts á vertíð frá Sandgerði. Þessi steinn var gjöf frá afkomendum Þórhalls Gíslasonar, fyrrverandi skipstjóra í Sandgerði. Jónas Karl Þórhallsson, sonur hans, fékk þessa hugmynd um steininn og ég sjálfur gróf upp allar upplýsingarnar sem á hann eru ritaðar.

Steininn spannar 52 ára sögu frá 1939 til ársins 1991 og Þórhallur, eða Dúddi Gísla, var í fjögur skipti aflahæstur í Sandgerði – árið 1961 var hann aflahæstur í Sandgerði á Hamar GK og var þá annar aflahæstur yfir landið, einungis Gullborg VE var hærri. 

Það sem vekur kannski mesta athygli við þann afla á Hamar GK var að báturinn var á línu alla vertíðina og endaði með 936 tonn í 83 róðrum. 

Eftir að Dúddi hætti sjómennsku vann hann á höfninni í Sandgerði í mörg ár eða þar til að hann hætti störfum.

Í Grindavík í dag er gerður út bátur sem heitir Dúddi Gísla GK og hann heitir eftir þessum merkilega Sandgerðingi. Báturinn hefur fiskað nokkuð vel á vertíðinni og núna í maí hefur hann t.d. landað alls 51 tonni í sex róðrum.

Fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar þá mæli ég með bíltúr á Bryggjuna í Grindavík en plattinn þar er á jarðhæð, á vegg við hurðina þar sem gengið er inn. Í Sandgerði er plattinn á annarri hæð og mjög gott aðgengi og lýsing. Á þessum árum, bæði í Grindavík og í Sandgerði, voru flestir bátanna sem voru að róa á netaveiðum en núna árið 2021 var enginn netabátur að róa frá Grindvík og í Sandgerði voru bátarnir hans Hólmgríms sem og Erling KE að róa, auk nokkurra grásleppubátar. 

Flestir bátanna sem róa núna eru línubátar og frá Grindavík hefur verið fjöldi báta sem róa á línu.

Og eitt svona í lokin – núna er fótboltavertíðin 2021 hafin og í Sandgerði er knattspyrnufélagið Reynir sem allir ættu nú að þekkja. Þar sem ég er nú ansi mikill Sandgerðingur keypti ég, fyrir hönd míns fyrirtækis og vefsíðunnar Aflafrettir.is, auglýsingu við völlinn. Ég kíkti á hana um daginn og er bara ansi ánægður með staðsetningu hennar á vellinum.

Svo er bara að hvetja alla til þess að fylkjast á vellina í sumar og hvetja sitt lið áfram.