Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Þegar ég verð stór
Föstudagur 28. janúar 2022 kl. 10:04

Þegar ég verð stór

Ég verð fimmtug eftir um einn og hálfan mánuð. Í sjálfu sér ekki merkilegar fréttir en mér finnst það ákveðinn áfangi að fyrri hálfleik sé lokið og sá seinni að hefjast. Auðvitað veit enginn hversu langan tíma við fáum með fólkinu okkar og ég er þakklát fyrir að fá að fagna þessum áfanga. Það eru víst ekki allir svo heppnir. Ég er sannarlega þakklát í ljósi þess að hafa upplifað það að missa nákominn ættingja fyrir þann aldur. Það er ansi margt sem fer í gegnum hausinn á manni alla daga en undanfarið hef ég verið á þeim stað að fara yfir og endurskoða líf mitt í ljósi tímamótanna framundan. Fara í gegnum hvað ég ætlaði virkilega að gera þegar ég loksins yrði stór. Hvað langar mig að skilja eftir mig og hvernig ég geti nýtt tímann skynsamlega eftir fimmtugt. 

Frumskilyrði er að passa upp á að heilsan og hausinn sé í lagi til þess að geta notið seinni hálfleiksins. Er þakklát fyrir að eiga skemmtileg áhugamál sem ég hlakka til að geta varið meira tíma í. Engu að síður finn ég samt að með aldrinum þá þrengist þægindahringurinn. Finn að ég er ekki eins opin fyrir nýjum ævintýrum, nýjum tækifærum eða nýjum kynnum. Þannig að maður þarf að vera meðvitaðri um að ýta sér út fyrir þægindarammann. Víkka þægindahringinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ein af mínum bestu vinkonum er mín fyrirmynd þegar kemur að þessum hlutum. Á síðustu tíu árum hefur hún ögrað sjálfri sér á alla mögulega vegu. Fjögurra barna móðir en ákvað að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja búferlum til annars lands. Kynnast annarri menningu. Á þessum tíu árum hefur hún haldið áfram að ögra sér. Ekkert er of erfitt. Ekkert er of flókið. Bara láta sig vaða. Ásamt því að stunda sín áhugamál ferðast hún jafnvel ein til framandi landa til þess eins að víkka sjóndeildarhringinn sinn. Lifa lífinu. Kynnast öðru fólki og um leið finna ljósið í hjartanu. Finn að ég spennist öll upp við það eitt að hugsa um þetta en er hrædd á sama tíma – en hvort sem ég enda á afmælisdaginn ein í jóga í framandi landi, á skíðum með mínum betri helmingi eða upp í sveit með góða bók þá er ég ákveðin í að mæta meðvituð í seinni hálfleik. Forðast lífsgæðakapphlaupið og finna þakklæti fyrir það sem maður hefur hingað til talið sjálfsagt. Gefa mér þannig tíma til að taka eftir litlu hlutunum og sjá fegurðina í þeim.