Þakklæti
Þakkargjörðardagurinn er, eins og við öll vitum, haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum ár hvert. Þetta er siður sem festi sig í sessi á 16. öld og snerist upphaflega um að þakka fyrir uppskeru liðins árs og gengur þvert á trú – en hann er ekki eingöngu haldinn hátíðlegur í Ameríku. Kanadabúar halda einnig upp á hann ásamt íbúum Grenada, Saint Lucia og Líberíu. Þjóðverjar og Japanir halda einnig hatíð sem svipar til þakkargjörðardagsins en þá eru upptaldar þær þjóðir sem fagna þessum degi. Þrátt fyrir ástæðu þess að dagurinn er haldinn hátíðlegur til þess að þakka fyrir uppskeru samkvæmt eldgömlum siðum, þá hefur hann haldið sér í sessi og margir vilja meina að hann sé meiri hátíðisdagur en jólin í Bandaríkjunum.
Ég er mikið jólabarn, hef alltaf verið. Held það eigi við um ansi marga Íslendinga. Við höldum jólin hátíðleg, gerum vel við okkur í veitingum, uppákomum, fjölskylduboðum og svo gefum við hvert öðru fallegar gjafir. Ég er ekki aðeins jólabarn fram í fingurgóma, ég er fáránlega væmið jólabarn. Á aðventunni fæ ég alls konar skrýtnar hugmyndir hvernig mig langar að gleðja þá sem standa mér næst. Hvernig mig langar að þakka fyrir allt. Best er ef ég fæ hugmynd sem hreyfir við fólkinu mínu og nær að sýna eitthvað sérstakt í sambandi mínu við viðkomandi. Hér er ég að tala um eitthvað sem ég geri frá hjartanu. Handverk, myndabækur, táknrænar gjafir. Kosta yfirleitt minnst en gleðja mest. Auðvitað læt ég eitthvað meira fylgja í pakkanum en þessi hefð er orðin ansi rík á mínu heimili og dætur mínar eru meira að segja farnar að leggja mikið upp úr gjöfum sem snerta hjartað. Í fyrra fengum við maðurinn minn t.d. mjög stórt málverk sem þær bjuggu sjálfar til. Á því voru málaðar setningar sem við erum vön að segja við þær og þær við okkur. Þetta málverk prýðir nú stærsta vegginn á okkar heimili. Þannig að já, það falla oftar en ekki tár á aðfangadag og stundum er mikið grátið. Þakklæti, ást og gleði. Vil ekki hafa þetta neitt öðruvísi.
Fyrir mér hafa jólin því alltaf verið táknmynd ákveðinnar uppskeruhátíðar. Eins konar þakkargjörðardagur eða uppskeruhátíð fjölskyldunnar þar sem við fjölskyldan förum saman yfir minningar og þökkum fyrir árið sem er að líða. Kannski er ég á villigötum með þetta en ég fór að hugsa þetta eftir að ég upplifði þakkargjörðardaginn í fyrsta skipti í gegnum dóttur mína sem býr núna í Bandaríkjunum. Fólk er ekki að gefa gjafir en allt er lagt upp úr því að hitta fólkið sitt og borða góðan mat. Stórar veislur og kærleikur. Þannig að við ykkur vil ég segja: „Gefið það sem þið viljið gefa, stórt eða lítið, en prófið að fara aðeins yfir það í huganum hvað þið eruð þakklát fyrir og með hvaða hætti þið viljið þakka fyrir.“ Annars vona ég að við njótum öll aðventunnar í öðruvísi uppsetningu en við eigum að venjast. Þökkum fyrir að fá að prófa hana með öðrum hætti, það er ekkert víst að við fáum það tækifæri aftur.
Inga Birna Ragnarsdóttir.