Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Tækifæri til að tengjast öflugum konum
Sunnudagur 28. maí 2023 kl. 06:03

Tækifæri til að tengjast öflugum konum

Nafn: Helga Björg Steinþórsdóttir
Aldur: 57 ára
Menntun: Sérfræðingur í leiðtogafræðum og stefnumótun frá Harvard háskóla


Helga Björg Steinþórsdóttir er FKA kona mánaðarins. Hún er eigandi og stofnandi AwareGo, netöryggisfyrirtækis á alþjóðlegum markaði

Við hvað starfar þú og hvar? Eigandi og stofnandi AwareGo sem er netöryggisfyrirtæki á alþjóðlegum markaði. Ég var svo að klára námið og er að mestu í dag í sjálfboðavinnu í nefndum og stjórnum ásamt því að vinna að því að lækka forgjöfina í golfi og njóta þess að vera með fjölskyldunni.

Hver eru helstu verkefni? Að láta gott af mér leiða til næstu kynslóðar kvenna með því að vera mentor fyrir þær konur sem eru að taka við keflinu og leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að bæta vinnuumhverfi kvenna í framtíðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt? Það er einstaklega gefandi verkefni að geta gefið til baka, að vinna með þessum frábæru kraftmiklu konum eru forréttindi. Að hafa stofnað fyrirtæki eins og AwareGO með eiginmanni mínum, Ragnari Sigurðsyni, hefur verið ferðalag sem er ævintýri líkast. Í dag er AwareGO alþjóðlegt fyrirtæki sem þjónustar stórfyrirtæki um allan heim. Fyrirtækið er rekið af einstaklega flottum hópi starfsmanna sem eru allir sérfræðingar á sínu sviði. Einnig ákvað ég fyrir ári síðan, eftir að hafa setið í stjórn AwareGO frá upphafi, ásamt Þórði og Ingvari sem eru stórstjörnur í þeim fræðum, að láta eftir stjórnarsætið mitt til næstu kynslóðar. Dóttir mín Sigrún Inga Ævarsdóttir, lögfræðingur, tók við sæti mínu og ég tel það mjög góða ákvörðun.

Helga í ferðalagi með fjölskyldunni sinni.

Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera? Ég var nýlega kosin í stjórn FKA, hlakka mikið til að leggja mitt á vogarskálarnar. Það er virkilega spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í því starfi sem þar fer fram og ég hlakka til aðgeta lagt eitthvað til málanna. Félagið er ört stækkandi og möguleikarnir miklir.

Hvað hefur þú verið að gera? Ég hef verið að mennta mig síðastliðin tvö og hálft ár í Harvard Buisness School online og mæli heilshugar með því námi ef konur og menn hafa tækifæri til að skella sér aftur í frekara nám.

Hvað ertu að gera núna? Þessa stundina er ég að undirbúa mig fyrir að vera þáttakandi í verkefni hjá Harvard sem kallast dæmisöguverkefni.

Framtíðarplön (svolítið sagan þín): Ég hef alla tíð unnið sjálfstætt og meðfram því alltaf verið eitthvað að mennta mig. 2007 fluttum við hjónin til Linz í Austurríki og þar stofnuðum við Linda systir Atelier Einfach sem var og er enn lítið listagallerí. Það var mjög skemmtileg reynsla og mikið ævintýri með Lindu systur, í dag heitir það L.Stein. Á sama tíma vorum  við hjónin að stofna AwareGO, sem er alþjóðlegt tölvuöryggisfræðslufyritæki en Ragnar maðurinn minn er tölvuöryggisfræðingur og ég hafði menntað mig sem MCSE, sem er vottaður Microsoft-kerfisfræðingur. AwareGO var lengi vel tveggja manna fyrirtæki og má segja að við höfum lagt í það allt okkar, hvort sem var tími eða peningar, en við erum að uppskera af þeirri vinnu í dag. Áður en við stofnuðum AwareGO rak ég fatahönnunina Mýr design þar sem ég hannaði fatalínur ásamt því að sjá um einkennisfötin fyrir Isavia í nokkur ár. Árið 2013 greindist ég með illkynja lungnakrabbamein og við þá reynslu tekur maður aðra stefnu í lífinu og upplifir einstakt þakklæti fyrir hvern dag, það er engin mýta heldur minn raunveruleiki. Í dag legg ég allan minn metnað í að njóta hvers dags, vera með fjölskyldunni gefa til baka, m.a. með því að starfa í FKA ásamt því að vera í Oddfellow og lækka forgjöfina í golfi.

Helga skráði sig í FKA upphaflega eingöngu til að geta tekið þátt í golfferðum og golfmóti FKA.

Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum? Ég hef alla tíð búið á Suðurnesjum fyrir utan fimm ár sem ég bjó í Linz í Austurríki en ég á sterkar tengingar þangað þar sem Linda systir hefur búið þar í yfir 30 ár.

Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum? Það eru bara kostir við að búa á Suðurnesjum, tækifærin eru endalaus ef fólk er vakandi fyrir þeim. Ég tel til dæmis að ferðaþjónustan á Suðurnesjum eigi mikið inni. Einnig að það séu miklir möguleikar þegar kemur að einkarekinni heilbrigðisþjónustu en ég tel það vera eitthvað sem kemur með tímanum.

Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes? Það sýnir mikið hversu mikill kraftur býr í fólkinu á Suðurnesjum, hversu öflugar þær konur sem hafa dregið vagninn fyrir FKA Suðurnes, þær hafa verið til fyrirmyndar í einu og öllu.

Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA? Saga mín í FKA er frekar frábrugðin flestum. Ég skráði mig í FKA upphaflega eingöngu til að geta tekið þátt í golfferðum og golfmóti FKA. Gerði það í nokkur ár byrjaði, svo að starfa í golfnefndinni og þaðan sá ég alla möguleikana sem voru innan félagsins til að efla sjálfið, læra og tengjast mögnuðum konum. Svo er nú komið að ég er komin í stjórn FKA og stefni á að gera mitt allra besta þar

Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig? Að vera meðlimur í FKA hefur gefið mér tækifæri til að tengjast öflugum konum, gefa af mér til baka og taka þátt í viðburðum sem hafa áhrif á viðskiptalífið og gefa fleiri konum tækifæri til að láta ljós sitt  skína.

Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum? Halda áfram að styðja hver aðra og vera til staðar fyrir hver aðra, það skilar sér alltaf margfalt til baka.