Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Svo kom kennslukona með kennarapróf
Sunnudagur 3. júlí 2022 kl. 12:07

Svo kom kennslukona með kennarapróf

Viktoría Guðmundsdóttir var fædd 3. júlí 1885 í Þjórsárholti og ólst þar upp og á Gýgjarhóli. Hún tók kennarapróf frá Flensborg 1904 og síðar frá Kennaraskólanum 1919. Viktoría var kennari í Biskupstungum 1904–1908, Laugardal og Grímsnesi 1909–1916 og heimiliskennari í Biskustungum 1917–1920. Var síðan við nám í Svíþjóð 1920–1921, þar sem hún kynnti sér m.a. kennara- og barnakennslu og teikninám. Tók þá um haustið við kennslu og skólastjórn Brunnastaðaskóla og gegndi því starfi með sóma í 31 ár. Hún fór til Svíþjóðar og Danmerkur á námskeið nokkur sumur meðan hún kenndi á Vatnsleysuströnd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í bréfum frá fræðslumálastjóra var hún ýmist sögð vera „forstöðukona barnaskólans“ eða „kennari“, fyrst titluð skólastjóri í fundargerð skólanefndar árið 1941. 

Ráðning Viktoríu gekk ekki hávaðalaust fyrir sig, eins og komið var inn á í síðasta þætti. Árni Theodór vildi halda áfram og naut nokkurs stuðnings til þess, m.a. í skólanefnd, og var auk þess oddviti hreppsnefndar um það leyti. En fræðsluyfirvöld hafa horft til menntunar og reynslu Viktoríu og hún vann sér fljótlega virðingu og stuðning.

Það gæti hafa haft áhrif að Viktoría er fyrsta konan til að kenna í þessum hreppi, annað en handavinnu stúlkna. Engin kona var í hreppsnefnd og í skólanefnd sátu bara karlar þar til Guðríður Andrésdóttir í Landakoti tekur þar sæti 1932. Viktoría sat sjálf í skólanefndinni 1938–1942, ásamt Guðríði, og voru konur þá í meirihluta.

Viktoría bjó fyrst á Efri-Brunnastöðum, síðan 1925-1944 í íbúð í norðurenda Skólahússins, en stofunni hennar var svo breytt í kennslustofu fyrir yngstu börnin 1939. Viktoría var alla tíð ógift og barnlaus. Hún hafði oft vinnustúlkur, m.a. bjuggu hjá henni systurdætur hennar, Helga og Guðrún og ein átján ára frænka bjó hjá henni og vann í frystihúsinu Vogar hf. Ella í Naustakoti var lengi vinnukona hjá henni, einnig Lóa sem svo giftist Guðmundi Skarphéðni. Laun Viktoríu fyrsta áratuginn voru 800 krónur á ári. 

Vorið 1924 lýsir Jón Kr. Jónsson, prófdómari, því yfir að kennsla sé í ágætu lagi, nema það vanti sérherbergi fyrir fimleikakennslu. ... „Háttprýði sú er einkenndi börnin varð eigi síst til þess að vekja athygli mína. Einnig voru hin hiklausu skýru svör þeirra, við prófspurningum, eftirtektarverð, því að þau bentu á mikinn þroska, ásamt dómgreind, sem virðist hafa verið þroskuð og aukin með fræðslunni...“

Árið 1929 var árangur hér í sveit talinn vera í meðallagi á landsmælikvarða.

Viktoría var mikils metin í samfélaginu. Hún tók þátt í félagsmálum, söng með börnunum í skólanum og í kirkjukórnum, var æðstitemplar í stúkunni Ströndin sem stofnuð var 1926 og gæslumaður barnastúkunnar Ársólar, sem hún stofnaði það sama ár og starfaði meðan Viktoríu naut við. Viktoría var landsþekkt fyrir áhuga á bindindis- og uppeldismálum og fór nokkrum sinnum til Svíþjóðar og kynnti sér þau mál, sem hún nýtti sér í kennslu. Hún skrifaði greinar í blöð og tímarit og var ritstjóri Unga Ísland 1919 og í stjórn Sambands íslenskra barnakennara um tíma.

Á árunum 1923–1928, þegar óvenju margir Guðmundar voru nemendur í skólanum tók Viktoría upp þann sið að nefna þá Björgvin, Jónsson og Ólafsson. Þeim gæluöfnum héldu þeir allir til dánardags.

Hér er eitt dæmi um kennslu- og stjórnunarhætti Viktoríu. Í janúar 1944 kvartar faðir undan því bréflega að kennsla hafi fallið niður dagspart vegna óknytta og uppistands nemanda gagnvart öðrum kennara, og krefst þess að skólastjóri haldi uppi aga og reglu í skólanum. Viktoría mat það svo að ekki hefði verið rétt að beita hörðu eða vekja þrælsótta, m.a. vegna þess að atvikið átti sér stað í kennslustund í kristnum fræðum varðandi undirbúing fermingarbarna. Í skólanum væru börn sem ekki virtust skilja að óhlýðni við kennarann sé saknæm. Hins vegar telji hún ekkert skólabarn vera svo illa innrætt að ástæða sé til að stimpla það opinberlega með því að víkja því úr skóla.

Viktoría var kennari/skólastjóri í 31 ár, 1921–1952 og sló þar met Árna Theodórs sem gegnt hafði því starfi samfellt í tíu ár. Þegar hún varð sjötug var safnað fyrir afmælisgjöf og gáfu 70 manns alls 7000 krónur. Gert var málverk af Viktoríu sem hangir uppi í skólanum. Viktoría bjó í Vogum áratug eftir að hún lét af störfum en bjó síðstu árin á Sólvangi í Hafnarfirði uns hún lést 1970. Hún gaf Flensborgarskóla bókasafn sitt 1965, voru það 569 bindi. 

Í minningargrein sem samkennarinn Stefán Hallsson skrifaði um Viktoríu Guðmundsdóttur segir m.a.:

„Engri konu hef ég kynnzt sannmenntaðri, skylduræknari, minnugri, fróðari og skjótari í svörum. Hún var skarpgáfuð kona, vinsæl og mikils virt. Hvarvetna kom hún fram sem sannur leiðtogi æskunnar. Ber vist öllum, sem til þekktu, saman um það og að skólastjórasætið á Vatnsleysuströnd hafi verið vel skipað meðan Viktoría var þar skólastjóri.“ Faxi 1.7.1945.


Heimildir. Kennaratal á Íslandi. Gjörðabók skólanefndar; Bókin Bréfin hennar Viktoríu, Inga Kristjánsd. 2021; Grein í Faxa 1990. Minningargreinar. Viðtöl við fólk sem kynntist Viktoríu.