Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Svart og sykurlaust: Margrét hvarf  - Guðbrandur á þing?
Föstudagur 15. janúar 2021 kl. 07:29

Svart og sykurlaust: Margrét hvarf - Guðbrandur á þing?

Margrét hvarf

Umræður á rafrænum bæjarstjórnarfundi 5. janúar urðu mjög líflegar þar sem Margrétarnar Sanders og Þórarinsdóttir fóru nokkuð mikinn. Margrét Sanders afneitaði þar m.a. bæjarstjóranum en í miðri ræðu Margrétar Þórarinsdóttur, þar sem hún var að fjalla um ummæli bæjarstjórans, slitnaði sambandið og hún komst ekki aftur í samband við fundinn fyrr en nokkru síðar. Þegar þetta gerðist „í beinni“ og ljóst að Margrét var dottin úr netsambandi sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar og fundarstjóri: „Hvað varð um bæjarfulltrúann? Forseti bæjarstjórnar frestaði umræðum um þetta mál en þegar Margrét komst í ræðustól aftur sagðist hún ekki hafa meira um málið að segja. Skemmst er frá því að segja að ummæli Margrétar Þórarinsdóttur á bæjarstjórnarfundi í desember urðu landsfræg en þá sagði hún á miðjum rafrænum bæjarstjórnarfundi svo allir heyrðu: „Krakkar – mig vantar hleðslutæki strax!“ Því er spurn? Hvernig stóð á því að bæjarfulltrúi Miðflokksins komst ekki í áramótaskaupið?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafmagnað andrúmsloft

Það er óhætt að segja að það hafi ekki ríkt eins góður andi á bæjarstjórnarfundum í Reykjanesbæ að undanförnu eins og var kjörtímabilinu 2014–2018. Þá var snerist allt um að koma fjárhag Reykjanesbæjar í rétt horf og þá voru sjálfstæðismenn miklu þægari enda þeir sem fengu skammirnar fyrir að koma bæjarfélaginu í slæma fjárhagsstöðu. Nú er ekki sama uppi á teningnum og óhætt að segja að andrúmsloftið á undanförnu rafrænu bæjarstjórnarfundunum hafi verið rafmagnað. Nú er aðeins eitt ár í það að bæjarpólitíkin fari að hreyfast meira enda kosningar áætlaðar vorið 2022. Hvað gerist þá?

Guðbrandur á þing

Meira um pólitíkina. VF heyrði nýlega frá sitjandi þingmönnum í Suðurkjördæmi og flestir eru að bjóða sig fram að nýju. Einn þeirra sem er að velta þingframboði fyrir sér er Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og oddviti Beinnar leiðar. Vitað er að Viðreisn hefur áhuga á að hann leiði lista þeirra í kjördæminu. Bubbi mun vera að íhuga málið.