Suðurnesjasveifla í kófinu
Það er óhætt að segja að árið 2021 hafi verið viðburðaríkt og eitt það sérstakasta fyrir okkur Suðurnesjamenn í langan tíma. Vonir og væntingar um að veiran væri að hverfa og venjulegt líf væri framundan rættist ekki en eldgos í Grindavík stal senunni stóran part ársins og jafnvel þannig að fólk gleymdi að það væri heimsfaraldur – um stund allavega.
Að fylgjast með því þegar bóluefni kom til Suðurnesja í lok ársins 2020 var eins og vítamínsprauta. Nú væri verið að sprauta þessa veiru burt. „Þetta er eitt stærsta og flóknasta verkefni sem ég hef tekið þátt í á starfsferli mínum,“ sagði deildarstjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í forsíðufrétt Víkurfrétta. Við fylgdumst með því og mynduðum 99 ára gamla konu, fyrst allra almennra Suðurnesjamanna, fá fyrstu sprautu í bólusetningu. Konan fagnaði 100 ára afmæli á miðju þessu ári og er þokkalega hress.
Eldgos í Geldingadölum
En „kóvið“ fékk óvænta samkeppni í umfjöllun þegar þúsundir jarðskjálfta skóku Suðurnesin og enn lengra. Við hjá VF erum fréttaþyrstir og það vill svo til að við horfum frá glerturninum í Reykjanesbæ sem skrifstofa okkar er í á fjórðu hæð – að Fagradalsfjalli. Við fengum skrítna hugmynd og gerðumst svo djarfir að skella kvikmyndavél út í glugga sem sýndi frá fjallinu í beinni útsendingu á netinu. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Þúsundir fylgdust með og áður en yfir lauk voru „innlitin“ á VF gos-síðuna milljón talsins. Netverjar kommenteruðu og sumir gerðu grín að þessu uppátæki okkar. Ekki voru liðnir nema tuttugu dagar þegar við fengum meldingu um appelsínugulan bjarna yfir fjallinu. Hilmar Bragi, okkar maður á vaktinni, var einmitt á skrifstofunni. Hann smellti frétt á Víkurfréttavefinn og Facebook-síðuna okkar og sagði að eldgos væri hafið. Hljóp síðan út á stórar svalirnar á fimmtu hæðinni og tók mynd af bjarmanum sem sýndi gosið og skellti á netið. Það var fyrsta myndin sem birtist frá eldgosinu. Stóru miðlarnir voru ekki alveg með á nótunum en vöknuðu eftir tíu mínútur eða svo. Við settum í þriðja gír og vorum mættir með græjur til Grindavíkur klukkutíma síðar. Fengum símtöl frá alþjóðlegum fréttaveitum sem vildu myndefni, stóru miðlarnir á Íslandi líka. Það var auðvitað allt lokað og lítið hægt að mynda nema björgunarsveitina Þorbjörn og áhyggjufullan bæjarstjóra Grindavíkur.
En svo fór allt í gang morguninn eftir þegar fyrstu myndir frá gosinu fóru að berast frá áhugasömum Suðurnesjamönnum sem margir mættu bara á staðinn, munduðu símana og birtu á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum í kjölfarið. Þetta varð síðan vinsælasti og heitasti staður Íslands næstu mánuði og gosið kom Suðurnesjum og Íslandi á heimskortið á ný.
Lífið gekk samt sinn vanagang á Suðurnesjum á árinu og atvinnuleysi náði hæstu hæðum þegar fjórði hver var atvinnulaus í lamaðri ferðaþjónustu í heimsfaraldri. Það fór að lagast með vorinu þegar ferðamenn fóru að flykkjast til landsins og hjól atvinnulífsins fóru að snúast á ný, ekki alveg jafn hratt og mikið og fyrir faraldur en nógu mikið til að atvinnuleysi minnkaði mikið og fór niður fyrir tíu prósent.
Suðurnesin vinsæl
Vinsældir Reykjanesbæjar og annarra bæjarfélaga á Suðurnesjum halda áfram að aukast. Nýir íbúar mæta á svæðið og byggðar eru fjöldi íbúða og húsa í öllum sveitarfélögunum – og sér ekki fyrir endann á. Í lóðaúthlutun að nýju hverfi skammt frá gosslóðum í Grindavík var dregið úr 400 umsóknum nú í desember og viðbrögðin við nýju hverfi í Suðurnesjabæ voru svipuð, lúxusvandamál á öllum stöðum. Öll sveitarfélögin nema Vogar á Vatnsleysuströnd státa sig af góðum rekstri en Vogamenn hljóta líka skömm í hattinn fyrir að tefja fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Taka ekki í mál að fá loftlínu sem allir aðrir hafa samþykkt.
Fjölbreytt Suðurnesja fjölmiðlun
Við Víkurfréttamenn höfum frá árinu 2013 verið með vikulegan sjónvarpsþátt, Suðurnesjamagasín, sem við sýnum á Hringbraut og Víkurfréttavefnum. Þættirnir eru orðnir á fjórða hundrað og í hverri viku erum við að hitta fólk og ræða við það. Nýir þættir á þessu ári eru fjörutíu og fjölbreytnin er mikil. Leggjum áherslu á fjölbreytni samfélagsins á Suðurnesjum. Nú í lok árs ræddum við til dæmis við Þorbjörgu Bergsdóttur, 82 ára gamla útgerðarkonu úr Garðinum, en fjölskyldufyrirtæki hennar, Nesfiskur, fagnaði nýjum glæsilegum hátæknitogara. Gamla konan fór til Spánar til að taka á móti honum og sigldi með skipinu heim til Íslands. Nokkrum vikum áður áttum við hjartnæmt og áhrifaríkt spjall við barnabarn Þorbjargar, Sóleyju Ingibergsdóttur, en hún greindist með krabbamein snemma árs, aðeins 26 ára. Hún sagði okkur frá öllu saman og baráttunni sem hún hefur háð. Þar sýndi hún mikinn styrk og kjark, m.a. þegar hún sýndi myndir af sér í krabbabaráttunni. Þær tvær eru fyrirmyndarkonur á Suðurnesjum og öðrum hvatning. Að hitta þær hvetur okkur áfram í því sem við höfum verið að gera í fjóra áratugi – að skrifa samfélagssögu Suðurnesja.
Þessi pistill var skrifaður að mestu leyti fyrir jól. Á aðfangadag greindist ritstjórinn með Covid-19 og þarf því að vera í einangrun í tíu daga. Ekki voru einkennin mikil, þó einhver fyrsta sólarhringinn, en þegar þessar línur eru skrifaðar er heilsan meira en þokkaleg. Verst þótti mér þó að missa bragðskynið sem fór á fyrsta degi. Það hefur því verið skrýtið að vera í einangrun á jólum, borða jólamat á borð við hangikjöt og hamborgarhrygg og finna ekkert bragð. Það hefur margt verið skrýtið í heimsfaraldri en undirritaður var búinn að fara í tvö hraðpróf á þremur dögum áður en veiran smellti sér á mig. Fjármálaráðherra bættist í hóp smitaðra á þriðja í jólum og við heyrum af miklum fjölda sem eru ýmist í einangrun eða sóttkví. Það er því ljóst á öllu að við þurfum að heyja baráttu við heimsfaraldur eitthvað áfram þó fréttir af minni veikindum og færri sjúkrahúsinnlögnum séu jákvæðar.
Við hjá Víkurfréttum þökkum samskiptin á árinu sem er að líða og óskum Suðurnesjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Páll Ketilsson,
ritstjóri Víkurfrétta.