Styttist í strandveiðitímabilið
Apríl að verða búinn og framundan er því maímánuður og strandveiðitímabilið mun hefjast. Allur línubátaflotinn hefur verið við veiðar utan við Grindavík núna í enda apríl og undanfarin ár hefur það verið merki um að vertíðin sé að verða búin. Því að flotinn hefur verið við Grindavík fram í u.þ.b. miðjan maí og síðan fara bátarnir í burtu hver af öðrum.
Vekur þetta nokkra athygli að allir línubátarnir séu utan við Grindavík en enginn utan við Sandgerði, þó svo að stóru línubátarnir frá Snæfellsnesinu sem og Grindavík hafa verið þar að veiðum.
Reyndar nú kannski einn skiljanlegur munur, að það er að sigling á miðin út frá Grindavík er lítil og sumir eru á veiðum svo til beint utan við innsiglinguna til Grindavíkur.
Ef við lítum á síðustu daga þá er t.d. Hafrafell SU með 44 tonn í fjórum róðrum, Sandfell SU 41,7 tonn í fjórum róðrum, Kristján HF 20 tonn í tveimur róðrum, Einhamarsbátarnir lönduðu líka en afli var ekki kominn inn þegar að þessi pistill var skrifaður, þeir lönduðu í Sandgerði þar á undan og þá var Auður Vésteins SU t.d. með 23,6 tonn í þremur róðrum og Gísli Súrsson GK 54 tonn í fimm róðrum.
Háey I ÞH 19 tonn í einum róðri en í síðasta pistli var fjallað um þennan bát því að Gullvagnin frá Skipasmíðastöð Njarðvíkur flotsetti bátinn eftir að hann var smíðaður í Mosfellsbæ.
Frá Bolungarvík eru komnir tveir bátar, Jónína Brynja ÍS 27 tonn í þremur og Fríða Dagmar ÍS með 29 tonn í þremur róðrum.
Strandveiðitímabilið mun hefjast 1. maí næstkomandi og mun þá ansi mikill floti af handfærabátum fara á sjóinn til handfæraveiða – og reyndar þá hafa ekki margir bátar verið á strandveiðum frá Suðurnesjunum.
Þeir bátar sem hafa verið á færaveiðum frá Suðurnesjum hafa að mestu reynt sig við ufsann og verið þá á veiðum við Eldey, í raun er fyrsti báturinn byrjaður á þeim veiðum. Sá bátur heitir Magrét SU 4, eikarbátur og einn af örfáum eikarbátum sem eru gerðir út hérna á landinu. Margrét SU var smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1976 og hét lengst af Sæþór SU og var þá gerður út frá Eskifirði, var með því nafni til ársins 1993 og því með því nafni í tæp átján ár.
Útgerðarfélagið Háeyri gerir út bátinn og þeir gera líka út Ragnar Alfreðs GK sem hefur undanfarin ár verið með aflahæstu handfærabátunum sem veiða ufsa.
Margrét SU hefur síðan árið 2008 einungis verið gerður út á handfæri og Háeyri eignast bátinn árið 2013. Árið 2021 endaði báturinn þó í 48. sæti yfir ísland miðað við færabátanna með 51 tonna afla og mest sjö tonn í róðri.
Þá hóf báturinn reyndar að veiða í júní 2021 en núna í ár hefur báturinn hafið veiðar og er því mun fyrr á ferðinni og verður fróðlegt að sjá hvort Margrét SU nái hærra en 48 sætið yfir handfærabátana fyrir árið 2022.