Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Styttist í líf í höfnum Suðurnesja
Laugardagur 9. nóvember 2019 kl. 07:22

Styttist í líf í höfnum Suðurnesja

Nýr mánuður kominn og það styttist óðfluga í að sjómenn á bátunum sem eru gerðir út frá Suðurnesjum komi til heimahafnar og líf færist í aukana, allavega í Grindavík.

Nú eru frystitogararnir að veiðum og fara næst síðasta eða jafnvel síðasta róður sinn á þessu ári.  Nýjasti frystitogarinn sem Þorbjörn ehf. gerir út, Tómas Þorvaldsson GK, átti ansi góðan októbermánuð en togarinn landaði alls 1303 tonnum í tveimur róðrum og mest 684 tonn.  Af þessum 1303 tonnum var ufsi 190 tonn, þorskur 524 tonn, ýsa 132 tonn og Gullax 112 tonn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hinir frystitogararnir lönduðu líka en ekki þó eins mikið og Tómas gerði. Hrafn Sveinbjarnarsson GK var með 677 tonn í einum róðri og af því var mest karfi eða um 340 tonn en þorskur 283 tonn. Baldvin Njálsson GK var með 644 tonn í tveimur róðrum og af því var ufsi 217 tonn og þorskur 141 tonn.  

Af Nesfiskstogurunum var Sóley Sigurjóns GK með 671 tonn í sjö róðrum en óttalegt flakk var á togaranum, landaði á Siglufirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Berglín GK var með 399 tonn í 6 róðrum og landaði í sömu höfnum og Sóley.  

Aðeins rættist úr aflanum hjá línubátunum undir lokin í október.  Fjölnir GK varð aflahæstur með 467 tonn í 5 róðrum og mest 106 tonn en hann landaði á Sauðárkróki, Siglufirði og Djúpavogi.  Páll Jónsson GK var með 424 tonn í fimm, öllu landað á Djúpavogi. Hrafn GK 403 tonn í sex róðrum og mest 106 tonn, öllu landað á Siglufirði. Jóhanna Gísladóttir GK 395 tonn í fjórum og mest 134 tonn. Sturla GK  var með 392 tonn í sex róðrum, Sighvatur GK 391 tonn í fimm róðrum og Valdimar GK 383 tonn í sex róðrum.

Af minni bátunum var Margrét GK með 145 tonn í 20 róðrum, Óli á Stað GK var með 132 tonn í 25 róðrum og þess má geta að Óli á Stað GK var sá bátur sem oftast réri allra báta á Íslandi í október. Meðalaflinn hjá bátnum var reyndar ekkert sérstakur eða 5,3 tonn. Til dæmis var meðalaflinn hjá Margréti GK  7,3 tonn, Vésteinn GK var með 111 tonn í 12 róðrum, Daðey GK 103 tonn í 16 róðrum og með meðalafla upp á 6,4 tonn. Auður Vésteins SU var með 96 tn í 12 róðrum og mest 21,5 tonn. Guðrún GK landaði 83,5 tonnum í 17 róðrum eða 4,9 tonn í róðri. Dúddi Gísla GK landaði 68 tn í 16 róðrum. 

Það má geta þess að allir þessir bátar sem að ofan eru nefndir lönduðu afla sínum fyrir austan eða norðan. Ef einungis er horft á bátana sem voru að veiða hérna og lönduðu á Suðurnesjum þá var Addi Afi GK með 6,7 tonn í þremur róðrum og Guðrún Petrína GK með 4,9 tonn í tveimur, og Alli GK 5,3 tonn í þremur róðrum.  Allir þessir bátar lönduðu í Sandgerði. 

Reyndar eru nokkrir bátar byrjaðir á veiðum núna í nóvember en það byrjar rólega hjá þeim.  Sævík GK er með 12,7 tonn í tveimur róðrum, Margrét GK 12,6 tonn í tveimur, Óli á Stað GK 9,3 tonn í þremur og  Geirfugl GK 7,3 tonn í tveimur róðrum en það má geta þess að Geirfugl GK er balabátur. Daðey GK var með 6,7 tonn í einum túr,  Katrín GK 1,9 tonn í einum en Katrín GK var að hefja veiðar í lok október og var þá báturinn búinn að liggja við bryggju síðan í byrjun maí 2019.  

Þótt svona langt sé liðið á árið þá voru nú samt nokkrir handfærabátar að róa í október, t.d í Grindavík var Grindjáni GK með 4,8 tonn í níu róðrum,  Þórdís GK með 4 tonn í sjö róðrum, Hrappur GK 342 kíló í einum róðri. Í Sandgerði var Fengur GK með 2 tonn í fjórum túrum og má geta þess að Fengur GK hefur líka landað núna í nóvember 278 kíló í einni löndun. Steini GK var með 1,2 tonn í 4 róðrum,  Staksteinn GK 897 kíló í tveimur, Alla GK 313 kíló í tveimur og Mjallhvít KE 159 kg í einum túr.  

Enginn færabátur landaði í Keflavík og reyndar var mjög lítið um að vera í Keflavík og Njarðvík.  Netaveiðin var léleg og þótt Maron GK hafi farið í 20 róðra þá var aflinn aðeins 39,3 tonn eða 1,9 tonn í róðri. Grímsnes GK var aðeins með 21 tonn í 13 eða 1,6 tonn í róðri. Sunna Líf GK  var með 9,2 tonn í 11 róðrum og landaði í Sandgerði.  

Í Sandgerði voru reyndar tveir bátar sem voru á skötuselsnetaveiðum og voru það Neisti HU sem var með 1,4 tonn í sex róðrum og Garpur RE með 53 kíló í einum túr. Reyndar fór síðan Garpur RE til Húsavíkur og lék þar smá hlutverk í bíómynd sem verið var að taka upp á Húsavík og inn á Skjálfandaflóa þar sem Garpur RE var í hlutverki.