Stormasömum mánuði að ljúka
Síðasti pistill var svona í ansi styttra lagi, enda var þá búin að vera mikil og leiðinleg tíð og bátarnir höfðu lítið sem ekkert getað komist á sjóinn. Ég endaði reyndar þann pistil á að segja að það mætti búast við því að það yrði góð veiði loksins þegar gæfi á sjóinn.
Og já, það má heldur betur segja að það hafi ræst því það gerði sjóveður þrjá daga í röð og það var mokveiði hjá bátunum, sérstaklega þeim sem réru frá Sandgerði á línu. Þar ber hæst Helgi Þór Haraldsson skipstjóri á Margréti GK frá Sandgerði, hann ásamt áhöfn sinni komst í þessa þrjá róðra og var með fullfermi í þeim öllum, alls var 55 tonnum landað í þessum þremur róðrum. Einn af þessum róðrum, sem var róður númer tvö, kom Margrét GK til Sandgerðis drekkhlaðin og með þessum pistli fylgir mynd af bátnum koma til Sandgerðis drekkhlaðinn, um borð voru samtals 20,6 tonn og var þetta mesti afli sem að Margrét GK hefur komið með í einni löndun frá því að báturinn hóf veiðar. Áhöfn bátsins var að vonum í skýjunum með þennan risaróður og í raun hefði hann getað verið örlítð stærri því að þeir gátu ekki dregið alla línuna og skildu eftir u.þ.b. þrjá bala í sjó (Margrét GK er beitningavélabátur en þarna er ég búinn að umreikna línuna yfir í bala).
Þessi mokveiði hjá Helga dró að sér báta frá Grindavík og má til dæmis nefna að Daðey GK kom með 14 tonn, Óli á Stað GK með 13,4 tonn og Geirfugl GK tæp 12 tonn. Róðurinn hjá Geirfugli GK vekur nokkra athygli því að báturinn fór lang síðastur á sjóinn og fór utar en hinir og var í raun í 4 mílunum frá Sandgerði, náði samt sem áður svo til fullfermi.
Allur þessi afli var tekinn innan við 4 mílurnar en ansi margir 29 metra togarar hafa verið að toga þarna fyrir utan núna í febrúar, til að mynda togarar frá Grundarfirði.
Þessi góða tíð þýddi það líka að nokkrir færabátar gátu róið og fóru allavega fjórir bátanna á ufsann í Röstinni, Agla ÁR var með 2,6 tonn í einum róðri og Gísli ÍS með 1.3 tonn, báðir lönduðu í Grindavík. Dímon GK var með 1.4 tonn í einum róðri og Guðrún GK 3,2 tonn í tveimur, báðir lönduðu í Sandgerði. Líf NS er kominn með 6,9 tonn í sex róðrum núna í febrúar en báturinn hefur verið á færaveiðum við Garðskagavita og landað bæði í Keflavík og Sandgerði.
Dragnótabáturinn Sigurfari GK sem er búinn að vera stopp allan febrúar útaf sviptingu á veiðileyfi, hóf aftur að róa núna í vikunni og var reyndar ekki með mikinn afla, aðeins um 3 tonn í tveimur róðrum. Benni Sæm GK er með 48 tonn í fimm, Siggi Bjarna GK með 44 tonn í fimm róðrum, Aðalbjörg RE með 18 tonn í fjórum, allir lönduðu í Sandgerði.
Svo til allir stóru línubátarnir eru komnir norður eða í Breiðarfjörðinn og til að mynda er Sighvatur GK kominn með 361 tonn í þremur túrum og Páll Jónsson GK með 270 tonn í tveimur, báðir landa á Skagaströnd. Reyndar var fyrsta löndunin hjá Sighvati GK uppá 124 tonn í Grindavík.
Það er stutt í lokin á þessum stormasama febrúarmánuði en miðað við hversu góð veiði var þessi fáu daga sem gaf á sjóinn, þá má búast við því að við eigum eftir að sjá meira af fullfermisróðrum hjá bátunum.