Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Sorglegur samanburður
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 25. febrúar 2022 kl. 06:56

Sorglegur samanburður

Þá fer að líða að lokum þessa febrúarmánaðar og þrátt fyrir rysjótta tíð þá hefur verið mokveiði þá daga sem bátarnir hafa komist á sjóinn. Reyndar er ansi sérstakt að horfa á útgerð frá Suðurnesjunum og horfa þá á neta, dragnót og minni línubátanna en þeim hefur fækkað mjög mikið á undanförnum árum og helst er að horfa á hversu fáir bátar róa á netum frá Suðurnesjunum.

Þeir eru í raun aðeins sjö bátarnir, Hraunsvík GK í Grindavík, reyndar hefur sá bátur ekkert róið síðan snemma í janúar, Erling KE, Bergvik KE, Sunna Líf GK og síðan bátarnir hans Hólmgríms, Halldór Afi GK, Maron GK og Grímsnes GK.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lítum aðeins á hvernig þessum sjö netabátum hefur gengið núna í febrúar. Erling KE er með 190 tonn í tólf róðrum, Grímsnes GK 118 tonn í átta, Maron GK 53 tonn í átta, Halldór Afi GK 11,4 tonn í átta, Bergvík KE 8,9 tonn í fjórum og Sunna Líf GK 1,5 tonn í einum. Hraunsvík GK með engan afla.

Sjö netabátar í febrúar árið 2022. Hvernig var þetta þá fyrir tuttugu árum síðan, í febrúar árið 2002?

Já, þá var fjöldinn næstum því tífalt meiri, því alls þá voru 68 netabátar á veiðum frá höfnum á Suðurnesjunum. Í Grindavík þá voru 23 bátar á veiðum og hæstur þar var þá Hafberg GK með 81 tonn í átta, Erling KE (skipaskrárnúmer 120) 65 tonn í sex, Óli á Stað GK (sknr. 233 og er gamla Erling KE sem brann) 68 tonn í tveimur róðrum mest af ufsa.

Fleiri bátar eru t.d. Þorsteinn GK 37 tonn í sex, Maron GK (plastbátur) með 32 tonn í átján, Hraunsvík GK (sknr. 1640) 31 tonn í sex, Eldhamar GK 31 tonn í sjö, Marta Ágústdóttir GK 29 tonn í fimm, Gullfari HF 27 tonn í fimmtán, Reynir GK 25 tonn í níu, Nóna GK 23 tonn í fimmtán og Ársæll Sigurðsson HF sautján tonn í fimmtán, þessir tveir bátar eru systurbátar, frambyggðir bátalónsbátar úr stáli.

Í Sandgerði þá voru 32 bátar á netum og hæstur þar var Ósk KE með 61 tonn í átján, þessi bátur heitir Maron GK árið 2022, Hafnarberg RE var með 47 tonn í átján og heitir þessi bátur Maggý VE árið 2022, Reynir GK 27 tonn í fimmtán (ekki sami bátur og í Grindavík, þessi með sknr. 1105), Hólmsteinn GK 24 tonn í þrettán, Guðfinnur KE nítján tonn í tveimur, Njörður KÓ nítján tonn í fimmtán, Þorkell Árnason GK nítján tonn í fjórtán.

Svo voru margir smábátar á netum og þeirra hæstur var Brynhildur KE með ellefu tonn í tólf. Í Keflavík voru þrettán bátar á netum og þeirra hæstur var Happasæll KE með 91 tonn í tólf en þessi bátur heitir Sigurfari GK árið 2022, Erling KE 34 tonn í fimm (sami bátur og í Grindavík), Gunnar Hámundarsson GK 34 tonn í sextán, Þorsteinn GK tuttugu tonn í tveimur, Gunnþór GK fimmtán tonn í fjórum, Hólmsteinn GK fjö tonn í og smábáturinn Árvík KE sjö tonn í tíu.

Eins og sést á þessum litla samanburði þá er gríðarleg fækkun á netabátum á aðeins tuttugu árum sem er í raun frekar sorgleg þróun og spurning hvernig þetta verður eftir næstu tuttugu ár.