Slæmt og leiðinlegt en líka gott
Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur er í sviðsljósinu. Óróapúls er nýtt orð um jarðhræringar og heldur Suðurnesjamönnum og mörgum Íslendingum á tánum. Keilir í beinni útsendingu Víkurfrétta er ein heitasta vefsíða landsins. Allir vilja sjá ef hraun fer að renna um skagann, kannski yfir Reykjanesbrautina eða hina leiðina, yfir Suðurstrandarveg, alla vega í Þráinsskjaldarhrauni, eldgamalli eldstöð. Það verður áhugavert að fylgjast með útlendingum bera það fram. Grindvíkingar hafa fengið stærsta skammtinn enda hafa nokkrir öflugir skjálftar verið rétt við byggð. Sumir hafa ekki sofið truflunarlaust frá því þessi hrina hófst. Í kaupbæti fengu Grindvíkingar svo rafmagnsleysi stóran hluta af síðasta föstudegi. Orðnir langþreyttir. Skiljanlega. En það er lítið við ráðið í jarðhræringum. Náttúruöflin við völd. Rafmagnsleysið slæm innkoma í þessa stöðu.
Forsætisráðherra fundaði með bæjarstjórn Grindavíkur. Heimamenn ekki mjög hressir með óvænt rafmagnsleysi. Grindavík fær raforku frá orkuverinu í Svartsengi, eina sveitarfélagið á Suðurnesjum. Öll starfsemi í bæjarfélaginu var í lamasessi í sjö klukkustundir. Bæjarstjórinn var mjög óánægður með þá staðreynd og sagði hana algerlega óviðunandi. HS Veitur hafa sent frá sér skýrslu og taka undir það en voru í vandræðum með málið. Næsta skref hlýtur því að vera að tryggja að svona geti ekki gerst. Í Grindavík eru stór og mörg fyrirtæki sem treysta á rafmagn. Tugir tonna af ferskum fiski stopp í fiskvinnslustöðvum og bæjarstjórinn sagði um tugmilljóna tjón að ræða þar sem starfsemi stöðvaðist í langan tíma. Sama hjá verslun og þjónustu. Grindvíkingar fóru fýluferð í Vínbúðina á föstudegi. Þurftu að fara til Keflavíkur.
Áhyggjurnar hjá yngri kynslóðinni voru minni enda er hún ekki að díla við þessi stóru mál. Í heimsókn okkar í Hópsskóla í vikunni sögðust flestir sem VF talaði við ekki hafa miklar áhyggjur af jarðhræringum. Margir bæjarbúar hafa þó lýst vanlíðan sinni á samfélagsmiðlum og víðar. Margir hafa þurft að tæma hillur vegna látanna í móður jörð og ekki verið svefnsamt. Nokkrir meira að segja flúið bæjarfélagið og enn aðrir jafnvel íhuga að flytja burt.
Ef við skoðum hina hliðina á peningnum þá er ljóst að athyglin er mikil á Reykjanesinu. Við hjá VF höfum fengið ótrúlega mikil viðbrögð við lifandi vefsíðu okkar af Keili og nágrenni. Nú er athyglin á Reykjanesi og þó svo flestum þyki jarðhræringar ekki skemmtilegar þá vekja þær athygli langt út fyrir landssteinana. Margir aðilar í útlöndum, m.a. stórar fréttaveitur hafa óskað eftir því að fá að tengjast beinu streymi VF frá Reykjanesskaganum að ógleymdum gríðarlegum áhuga Íslendinga. Innlit á síðuna voru komin yfir hálfa milljón eftir viku og hvergi nærri hætt. Þegar við skoðum jákvæðu hliðina þá þarf að huga að ýmsu því tengt. Gosið í Eyjafjallajökli hafa gríðarleg áhrif í ferðaþjónustu á Íslandi og var upphafið af stórri bylgju sem stóð yfir alveg fram að heimsfaraldri. Við hljótum að telja það líklegt að Reykjanesið eigi eftir að fá meiri athygli í framtíðinni út af þessum jarðhræringum. Starfsmenn Markaðsstofu Reykjaness og Jarðvangs hafa brugðist við og eru með tilbúin tól til að vekja athygli á svæðinu með tveimur bókum. Þeir gáfu í vikunni öllum nemendum í 1.-3. bekk grunnskólanna skemmtilega bók um veröld vættanna ásamt litabók. Einnig var nýlega gefin út ljósmyndabók. Allt á besta tíma. Spennan heldur áfram. Eins og í bikarúrslitaleik og eins og þar, vitum við ekki hvert framhaldið verður.