Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Skólinn fluttur í Voga 1979
Myndin sýnir fyrsta áfanga húss Stóru-Vogaskóla spegla sig í Vogatjörn um 1990. Til hægri er lausa smíðastofan sem var þar vel á annan áratug. (Mynd: Eyjólfur Guðmundsson)
Föstudagur 9. september 2022 kl. 07:09

Skólinn fluttur í Voga 1979

Brunnastaðahverfið var lengst af þungamiðja Vatnsleysustrandarhrepps og því eðlilegt að skólanum var valinn staður þar í upphafi. Þegar vélbátaútgerð hófst 1930 og byggð skyldi höfn reyndist besta hafnarstæðið vera í Vogum. Fiskvinnsla og bátaútgerð efldist þar mjög á fimmta áratugnum þegar frystihús Voga hf. var byggt ásamt nýrri höfn. Frá þeim tíma verður mun meiri byggð í Vogum en í Brunnastaðahverfi og börnum fjölgar sem aka þarf í skólann.

Í maí 1959 skorar skólanefndin á hreppsnefnd að nú þegar verði athugaðir möguleikar á að byggja nýtt skólahús í Vogum, enda sé skólahúsið svo ófullnægjandi að ekki sé hægt að framkvæma lögboðna kennslu. Börnum sé farið að fjölga og húsið of lítið. Í fundargerðum skólanefndar áratug síðar kemur fram að gera þurfi miklar endurbætur, skólinn haldi hvorki vatni né vindi, dúkar lélegir, salerni mjög léleg og drykkjarvatn mengað. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 1979 var svo tekið í notkun nýtt skólahús í Vogum sem hlaut nafnið Stóru-Vogaskóli, en einnig höfðu komið fram tillögur um nafnið Vogaskóli og Vogavíkurskóli. Í 4. tbl. Faxa 1979 rekur Hreinn Ásgrímsson, skólastjóri og formaður byggingarnefndar skólans, byggingasögu þess. Húsið hafi komist á fjárlög 1974, teikningar samþykktar árið eftir, sökklar steyptir 1976, síðan gólfplatan og útveggir 1977 og húsið fokhelt árið 1978.

Vígsluhátíðin 30. september hófst með því að sr. Bragi Friðriksson fór með vígslubæn og kirkjukór Kálfatjarnarkirkju söng nokkur lög. Magnús Agústsson, hreppstjóri og oddviti, flutti ávarp og sagði m.a.: „Það er von mín og trú, að frá þessari stofnun megi ætíð liggja straumar menningar og manndóms, gera æsku þessa byggðarlags mögulegt að verða góðir þegnar þessa lands, svo hér blómgist gott og fagurt mannlíf.“

Ingibjörg Erlendsdóttir afhenti skólanum að gjöf málverk af Viktoríu Guðmundsdóttur sem var skólastjóri í 31 ár en myndina málaði Eiríkur Smith. Gefendur voru gamlir nemendur Viktoríu. Stefán Hallsson, kennari, las þrjú kvæði eftir Davíð Stefánsson. Helgi Jónasson, fræðslustjóri, flutti ávarp, einnig Kjartan Jóhannsson, ráðherra, sem flutti kveðjur frá þingmönnum og árnaði skólanum allra heilla. Formaður kvenfélagsins, frú Margrét Jóhannsdóttir, færði skólanum 100 þúsund að gjöf til kaupa á kennslutækjum, Omar Jónsson færði sömu upphæð frá Ungmennafélaginu Þrótti til kaupa á kennsluritum í bókasafnið, Lionsklúbburinn Keilir gaf nýtt ræðupúlt, Patricia Hand gaf málverk og María Finnsdóttir gaf skrifborð til minningar um mann sinn, Arna Klemens Hallgrímsson, sem lengi var formaður skólanefndar.

Flatarmál hússins var um 620 m2 og gert ráð fyrir að seinna yrði byggt við það önnur álma – sem varð raunin 1998. Voru fimm kennslustofur í húsinu, sú minnsta rúmlega 40 m2 en sú stærsta 70 m2. Bókasafn var í húsinu. Sökum þess að nemendafjöldi jókst verulega frá því að skólinn var teiknaður fékk byggingarnefnd samþykktar breytingar til að auka kennslurými. Engu að síður varð húsið fljótlega of lítið. Bæði fjölgaði börnum og frá 1985 var farið að kenna tíu árgöngum. Fljótlega var bætt við lausri kennslustofu fyrir smíðar. Svo var byggt við húsið og það tvöfaldað að stærð 1998 – og síðan var rýmið aftur tvöfaldað 2005. 

Þegar skólinn er kominn í Voga geta flest börnin gengið í skólann en börnum af Ströndinni er áfram ekið með skólabíl. Svo þurfti að aka öllum börnunum tvisvar í viku til Njarðvíkur í íþróttir og sund, allt þar til íþróttamiðstöðin í Vogum kom í gagnið 1993 en þá minnkaði verulega þörfin fyrir skólaakstur.

Heimildir. Gjörðabók skólanefndar. Faxi 4. tbl. 1979. Munnlegar heimildir þáverandi nemenda og kennara (Jón Ingi, Jóhann Sævar, Særún, Sesselja o.fl.).