Samverustundir
Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) útnefndi nýlega samverustundir sem jólagjöf ársins.
Allt frá árinu 2006 hefur RSV útnefnt jólagjöf ársins. Samverustundin nær þarna að skipa sér á stall með GPS-staðsetningartækinu sem var útnefnt 2007, jogginggallanum sem bar eftirminnilega sigur úr býtum í alheimsfaraldrinum og vitanlega ávaxtapressunni sem var fyrsti handhafi þessarar merkilegu útnefningar.
Það hlýtur að vera samfélagi okkar áhyggjuefni þegar hinn eini sanni samnefnari jólahátíðarinnar, samveran, er orðin jólagjöfin sjálf.
Fyrir aðeins tólf árum síðan var spjaldtölvan útnefnd sem jólagjöf ársins en síðan má segja að skjáfíknin hafi yfirtekið samfélag okkar svo rækilega að nú sé hin eina sanna gjöf frí frá skjánum.
Tökum þetta til okkar, mætum í fjölskylduboðin þessi jólin og áramótin án snjalltækjanna. Verum til staðar. Finnum gömlu digital-myndavélina þar sem linsan snýr frá okkur. Tölum við fólkið og njótum samverunnar. Sú jólagjöf kostar ekki neitt en er gulls ígildi. Ef þið viljið slá virkilega í gegn mætið þá í jogginggallanum með ávaxtapressuna undir hendinni og djúsið upp fjörið. Uppskrift að ógleymanlegum jólum sem aldrei sjást á samfélagsmiðlum.
Gleðilega hátíð.