Samfélagslegt Suðurnesjaverkefni af bestu gerð
Mann rekur eiginlega í rogastans þegar maður gengur inn í nýtt 150 herbergja hótel í Reykjanesbæ sem bíður eftir fyrstu gestunum og landið er lokað á tímum COVID-19. Þetta er óvanaleg staða að svona bygging sé tilbúin með öllu sem skiptir máli líka eins og veitingastað, bar og herbergjum og nú sé bara beðið eftir viðskiptavinum. Sagan hefur meira verið þannig að það séu enn framkvæmdir þegar fyrstu gestirnir mæta.
Frændsystkinin Keflvíkingurinn Ingvar Eyfjörð og Njarðvíkingurinn Rósa Ingvarsdóttir lögðu saman hesta sína í skemmtilega ferð þar sem þau leituðu að fjárfestingatækifærum í sinni heimabyggð sem væri ígildi samfélagsverkefnis. Úr varð að setja í gang uppbyggingu verslunar- og þjónustutorgs undir nafninu Aðaltorg en staðsetningin vísar í nafnið. Stefnan var sett á að byggja flugvallarhótel í móanum skammt frá flugvellinum og fá tengingu við stóra, alþjóðlega hótelkeðju. Eftir nokkra þrautargöngu tókst þeim að fá með sér í lið sterkan fjárfesti og síðar bættist í hóp hluthafa á byggingartímanum – og þau náðu samningi við Marriott, sem er stærsta hótelkeðja heims.
Víkurfréttir hittu þau frændsystkin og þeirra lykilfólk í vikunni, úr varð viðtal sem við birtum í blaði og í sjónvarpsþætti vikunnar, Suðurnesjamagasíni. Eftir að hafa hlustað á söguna í þessu ævintýri er ekki hægt annað en að dást að frumkvæði þeirra frændsystkina sem og ásetningnum, að samfélagið myndi líka njóta góðs af. Þau hafa notað eftir fremsta megni nær eingöngu heimamenn í öll verk og vilja með öllum mætti styrkja Reykjanesið sem þau hafa mikla trú á sem ferðamannastað og telja hann vannýttan. Tækifærin séu mörg og hægt að gera miklu betur. Þau eru með framtíðarhugmyndir sem koma ekki allar fram í viðtalinu en það verður spennandi að fylgjast með þegar Aðaltorg fer í gang af fullum krafti. Við segjum bara: „Vel gert og gangi ykkur vel með Suðurnesjaverkefni af bestu gerð!“
Í rafrænu blaði vikunnar má líka lesa ferðasögu Brynju Bjarnadóttur sem lokaðist inni í Nepal en þar segir frá ævintýralegri heimför. Við erum einnig með fjölda viðtala við Suðurnesjamenn um COVID-19 og fleira en við heyrum líka í Suðurnesjafólki í Danmörku, Spáni og Bandaríkjunum.
Sækjum okkur heim er fyrirsögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í lokaorðum Víkurfrétta vikunnar. Hún ræðir þar um afleiðingar og möguleika ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum eftir COVID-19 en eins og allir vita er ferðaþjónustan gríðarlega mikilvæg atvinnugrein hér á Suðurnesjum. Ragnheiður kemur líka með góða punkta varðandi nærumhverfið sem þarf að vera aðlaðandi og vel hirt þegar við viljum fá landsmenn í heimsókn. Hún segir m.a.: „Fallegur, vel hirtur bær í dásamlegu umhverfi með heimsklassa þjónustu, að ég tali nú ekki um í dásamlegu sumarveðri. Ég held að fólk myndi vilja koma ... það þarf bara að vita af okkur.“