Sækjum okkur heim
Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur
Ég er ekki að flytja neinar fréttir þegar ég bendi á að það stefni í það að við séum ekki að fara neitt í sumar. Frekar súr en bláköld staðreynd því miður – en sumarfrí í útlöndum er eitthvað sem við þurfum að geyma til betri tíma. Vonandi verða veðurguðirnir okkur extra hliðhollir og við munum hugsa hlýlega til sumarsins 2020 þegar við nutum þess að ferðast innanlands í íslensku sumarblíðunni.
Það er ljóst að samkeppnin um íslenska ferðamanninn verður hörð þetta sumarið. Staðreyndin er sú að flestöll ferðaþjónustufyrirtæki í heiminum berjast í bökkum í þessu hamfararástandi og sjá fyrir að þurfa að treysta á innlenda markaðinn. Ísland er þar engin undantekning og vonandi tekst okkur í sameiningu að brúa bilið þar til erlendu ferðamennirnir byrja aftur að sækja okkur heim.
Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein hér á Suðurnesjunum eins og allir vita. Flugstöðin hefur verið okkar stóriðja og höggið því þungt þegar flugið stöðvast eins og hendi sé veifað. En það eru fleiri fyrirtæki hér á svæðinu sem hafa byggt afkomu sína á ferðaþjónustunni, hér er fjöldinn allur af hótelum, veitingastöðum og afþreyingafyrirtækjum sem standa auð og verkefnalaus. Hvernig mun þeim reiða af og hvernig mun þeim ganga í baráttunni um innlenda ferðamanninn?
Við vitum sem hér búum að Reykjanesið er algjör náttúruperla en því miður er það frekar vannýtt náttúruperla og lítt þekkt af Íslendingum. Reykjanesið hefur ekki verið áfangastaður Íslendinga, heldur miklu frekar þjóðbraut þeirra til og frá landinu. Án þess að hafa stundað hótelrekstur sjálf get ég mér þess til að stærsti hluti hótelgesta í Reykjanesbæ séu erlendir ferðamenn og að þeir dvelji hér frekar stutt, ýmist á leið til eða frá landinu. Þeir Íslendingar sem dvelja hér á hótelum myndi ég álíta að væru í þeim sömu erindagjörðum, til viðbótar við einstaka árshátíðir eða viðlíka viðburði.
Ef þetta mat mitt er rétt þá óttast ég að það gæti verið mjög á brattann að sækja í baráttunni um innlenda ferðamanninn í sumar. Þarna þarf þegar í stað að ráðast í aðgerðir, sameiginlegt kynningar- og markaðsátak fyrir svæðið allt til að höfða til íslenskra ferðamanna sem eru ekki vanir að líta til Reykjanessins sem áfangastaðar, hvað þá gististaðar. Þarna þarf Reykjanesbær að taka forystu, skýra forystu. Það þarf að tala bæinn okkar upp og gera hann líka að eftirsóknarverðum áfangastað. Í samvinnu við hótelin, veitingastaðina og önnur ferðaþjónustufyrirtæki þarf að kynna hvað hér er til staðar og hvað við höfum upp á að bjóða. Af nógu er að taka – fólk veit bara ekki af því.
En það er ekki nóg. Bærinn okkar þarf að líta vel út og vera aðlaðandi og vel hirtur til þess að einhverjum detti í hug að koma hingað. Þar þarf Reykjanesbær að gera stórátak og það í hvelli. Það þarf að þrífa götur og göngustíga eftir veturinn og leggja miklu meiri metnað í það en hefur verið gert, t.d. með snjómokstur á þessum sömu göngustígum í vetur. Það þarf að laga það sem bilar og skemmist – má ég nefna ljósin á Strandleiðinni sem dæmi. Já, það kostar pening en ef hlutir fá að drabbast niður ber enginn virðingu fyrir þeim. Það þarf að planta blómum og hirða beð. Svo þurfum við íbúar líka að leggja okkar af mörkum – tökum til og gerum fínt í kringum okkur, göngum vel um, hendum rusli í ruslafötur og hirðum upp eftir hundana okkar!
Fallegur, vel hirtur bær í dásamlegu umhverfi með heimsklassa þjónustu, að ég tali nú ekki um í dásamlegu sumarveðri. Ég held að fólk myndi vilja koma ... það þarf bara að vita af okkur.