Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Ruglum ekki í rokkinu
Föstudagur 5. apríl 2024 kl. 06:03

Ruglum ekki í rokkinu

Sumar hugmyndir eru einfaldlega verri en aðrar. Að ætla sér að færa bókasafn í tónlistarskóla hljómar eins og öruggur gullverðverðlaunahafi í keppninni um fjarstæðakenndustu hugmyndina. Þegar það svo bætist við að ætlunin sé að loka helsta flaggskipi menningararfs Bítlabæjarins sjálfs, Rokksafni Íslands, þá fallast manni næstum hendur. Ég hef fylgst með þessu máli úr fjarlægð og minnir að ég hafi fyrst heyrt af þessu síðla árs 2022. Ég hef enn ekki heyrt, lesið eða rætt þetta við neinn sem þykir þessi hugmynd góð. Þetta er ekki pólitískt álitamál, þvert á móti sameinar þetta fólk alls staðar af hinu pólitíska litrófi í andstöðu við þessa vondu hugmynd.

Og þau sem málið varðar eru líka andsnúin hugmyndinni, sérstaklega bókasafnið sjálft sem fær ekki það pláss sem það þarf til framtíðar. Þannig lítur þetta út fyrir að vera einhver tímabundin millibils redding, sem er mjög vont fyrir alla, sérstaklega Rokksafnið sem er einstakt á alla vegu og á miklu betra skilið en að vera vængstýft í einhverri skammsýnni, metnaðarlausri reddingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjórnarmeirihlutinn keyrði þetta í gegn, en virðist nú vera eitthvað að hopa. Vonandi, því það má alveg skipta um skoðun þegar hugmyndir eru svona vondar og illa séðar. Við 30 sekúnda „gúggl“ eru fyrirsagnir vægast sagt misvísandi:

  • 4. mars er fyrirsögnin „Rokksafni Íslands verður lokað“ á mbl.is og vitnað í bæjarstjórann sem segir „Já, safninu sem slíku verður lokað en það verður reynt að hafa einhverja muni og minjar frá Rokksafninu inni á milli á bókasafninu,“.
  • 20. mars er fyrirsögnin í Víkurfréttum hins vegar „Rokksafninu verður ekki lokað – segir formaður bæjarráðs“. Þar er vísað í viðtal Magnúsar Hlyns, fréttamanns á Selfossi sem spyr: „Er þetta þá bara einhver misskilningur, spurði Magnús Hlynur? „Ég veit það bara ekki, stundum skil ég bara ekki fréttaflutning af svona toga en það er allavega einhver sem kýs að segja söguna með þessum hætti, “ segir Halldóra Fríða.“
  • Svo bætist enn í þegar Víkurfréttir greina frá því 2. apríl að bæjarstórinn sjálfur lýsi sig vanhæfan í öllu þessu máli þar sem hann er fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans og hann óttist að „persónulegar skoðanir hans gætu truflað vinnuna“.

Sem sagt, bæjarstjórinn segir að það eigi að loka safninu 4. mars, formaður bæjarráðs að það eigi ekki að loka 20. mars, og síðan er álitamál hvernig lesa megi í tvíræða yfirlýsingu bæjarstjórans um hans persónulegu skoðanir. Ég leyfi mér samt að hafa trú á bæjarstjóranum og myndi veðja (lágri upphæð reyndar) að hann sem tónlistarmaður úr einni frægustu tónlistarfjölskyldu Bítlabæjarins gæti frekar verið andvígur þessari vondu hugmynd. Ef ég hef rétt fyrir mér með það finnst mér málið enn alvarlegra og drifið áfram af naumum bæjarstjórnarmeirihluta. Eða hvað? Hvað með orð formanns bæjarráðs, er hún kannski ekki hlynnt þessu lengur?

Punkturinn er þessi. Þetta er vond hugmynd sem hefur mjög lítinn stuðning. Það eru ýmsar aðrar leiðir til að leysa vanda bókasafnsins – eða öllu heldur vanda ráðhússins sem þarf bókasafnsplássið.

Að eyðileggja Rokksafnið í Bítlabænum er eins og að hætta með körfuboltaæfingar í Reykjanesbæ – einfaldlega fullkomnlega galið. Vinnum saman að betri lausn. Og já – mínar innilegustu hamingjuóskir til bikarmeistara Keflavíkur kvenna og karla. Svona vinnast leikirnir – þegar liðið er samstillt.