Refsing götunnar til glötunar
Me too-byltingin heldur áfram og ég fagna því. Eins og með allar breytingar þá mun pendúllinn sveiflast of langt áður en hann finnur nýtt jafnvægi. Við erum ennþá að sveiflast og enginn veit hversu langt við erum komin. Að minnsta kosti er ekkert lát á kynferðisbrotamálum sem eru koma upp á yfirborðið. Kynferðisbrot eru skelfileg og afleiðingar fyrir þolendur hræðilegar. Skömm þolenda gerir það oft að verkum að aðeins brotabrot þeirra koma upp á yfirborðið í formi kæru. Það er erfitt að kæra. Skömminn og efinn og þrautagangan fyrir þolendur að ganga í gegnum allt ógeðið aftur gerir það að verkum að ákæruhlutfallið er lágt. Til að bæta gráu ofan á svart er sönnunarbyrðin erfið og sakfellingarhlutfallið þess vegna lágt. Þolendur kynferðisbrota hafa því fundið sér annan farveg til að skila skömminni. Dómstóll götunnar í formi samfélagsmiðla og fjölmiðlar leika þar lykilhlutverk.
Dómstóll götunnar er mjög áhrifamikill, sérstaklega þegar kemur að þekktum einstaklingum. Hver manneskja hefur aðeins eitt mannorð. Það getur verið gríðarlega erfitt að missa það og enn erfiðara að vinna það til baka. Það langar enga manneskju að vera tekin fyrir af þeim dómstóli og eiga sér varla afturkvæmt í samfélagið. Það má halda því fram að refsing dómstólsins sé í raun umsvifalaust stofufangelsi í ótilgreindan tíma. Tíminn fer eftir því hversu lengi almenningur man eftir málinu.
Ég horfði á fréttaskýringaþáttinn Kveik í síðustu viku, eins og svo margir landsmenn. Þar var viðtal við leikara sem hafði hagað sér með ósæmilegum hætti gagnvart ólögráða stúlkum. Hann var hvorki kærður né dæmdur en missti æruna, vinnuna og taktinn í lífinu. Skiljanlega. Þessa sömu viku gekk um samfélagsmiðla frásögn stúlku sem hafði lent í höndum fjögurra áhrifamikilla karlmanna í okkar samfélagi. Að hennar sögn var hún búin að vera niðurbrotin í heilt ár áður en hún þorði að stíga fram. Fjórmenningarnir voru nafngreindir og dómstóll götunnar er með þeirra mál í sinni aðalmeðferð. Þessi sami dómstóll er líka búinn að hafa mál einnar goðsagnar íslensku knattspyrnunnar til umfjöllunar í lengri tíma en hann bíður þess að mál hans verði tekið fyrir af raunverulegum dómstól. Ætli það skipti nokkru máli úr þessu hver niðurstaða raunverulegs dómstóls er þegar dómstóll götunnar hefur úrskurðað fyrir löngu? Mannorðið er löngu glatað.
Það má lengi velta vöngum yfir því af hverju dómstóll götunnar hefur þessi völd og hvers vegna fólk leitar þangað. Ein af ástæðunum að mínu mati er hversu óskilvirkt, svifaseint og ósanngjarnt réttarkerfið er, sérstaklega þegar kemur að kynferðisbrotum. Dómstóll götunnar hefur þannig fyllt upp í ákveðið tómlætisrúm í kynferðisbrotamálum en hann er hvorki sanngjarn né málefnalegur. Óréttlæti og reiði eru sterkar tilfinningar sem knýja fólk til aðgerða. Þessar tilfinningar hafa fundið sér farveg í gegnum dómstól götunnar. Þar til hinir raunverulegu dómstólar munu vinna traust almennings þegar kemur að kynferðisbrotamálum mun þessi dómstóll áfram vera fyrsti valkostur þolenda.