Play eða pása?
Mikið ofsalega hlakka ég mikið til þegar lífið verður venjulegt aftur. Þegar maður getur farið að hitta og knúsað alla vini sína saman. Alvöru knús, ekki eitthvað olnboganudd. Farið í veislur, hætt að nota grímur og farið til útlanda. Hef þó ekki saknað þess neitt sérstaklega að vera endalaust í útlöndum en nú hef ég ástæðu til að fara þar sem yngri dóttir mín býr í Ameríku. Ég hef verið hugsi yfir stöðu efnahagsmála í þessum faraldri eins og flestir. Atvinnuleysi í hæstu hæðum og mörg fyrirtæki meta stöðu sína ekki góða. Þó þetta eigi ekki við um alveg öll fyrirtæki þá kemur þetta við allt fólkið í landinu. Einkaneysla á Íslandi hefur þó dregist merkilega lítið saman í faraldrinum, fólk er ekki lengur að eyða peningunum sínum í útlöndum og vilja gera betur við sig hér heima. Mjög skiljanlegt allt, ég er þar líka. Rétt áður en Covid skall á, eða seinni part árs 2019, var tilkynnt um nýtt flugfélag, Play, sem ætlaði að hefja flugrekstur til og frá landinu sumarið 2020. Þetta var aðeins nokkrum mánuðum eftir að flugfélagið WOW féll og rúmu ári eftir að WOW var komið í mjög þrönga rekstrarstöðu skv. fréttum liðinnar viku. Ég hef sjálf starfað í flugrekstri í einhverja áratugi, bæði hjá Icelandair og WOW. Ólík félög, bæði verkefnin mjög skemmtileg en líka krefjandi. Bestu minningarnar eru fólgnar í að kynnast öllu því frábæra fólki sem þar starfaði og sumir starfa enn.
Í síðustu viku voru fréttir af ráðningu nýs forstjóra Play, Birgis Jónssonar. Í viðtali við fjölmiðla lýsti Birgir því yfir að hann væri mjög spenntur fyrir nýju starfi, eðlilega en orðin sem hann notaði voru: „Þetta verður erfitt, flókið og hratt. En djöfull sem þetta verður gaman!!“. Ég þekki Birgi ekki neitt og hef ekkert heyrt nema jákvætt um hann en fékk hins vegar smá kvíðaeinkenni við að lesa þetta. Íslenska þjóðin er í dag að reka Icelandair sem blæðir skattpeningum á hverjum degi og þjóðin búin að borga sinn hluta af brúsanum fyrir WOW. Icelandair fjármagnaði sig síðast með peningum almennings, mest í gegnum lífeyrissjóðina. Í þessari efnahagskreppu sem ekki sér fyrir endann á er félagið líklegt til að draga á lánalínur sínar frá ríkisbönkunum sem eru með 90% ábyrgð ríkisins. Uppbygging í ferðaþjónustu í aðdraganda Covid-faraldursins var gríðarleg og skaðinn hefur að sama skapi verið gríðarlegur. Play er þriðja lággjaldaflugfélagið til að hefja millilandaflug með bækistöðvar frá Íslandi og vonandi er allt þegar þrennt er. Ég er enginn talsmaður fákeppni og einokunar en ég hræðist afleiðingarnar ef Play fer sömu leið og WOW þrátt fyrir að það sé nú alltaf gaman í partýi. Íslenska þjóðin á ekki að þurfa taka fleiri flugrekstrarreikninga.
Inga Birna Ragnarsdóttir