Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Orðið fátæklegt í línubátaflotanum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 2. ágúst 2024 kl. 06:11

Orðið fátæklegt í línubátaflotanum

Þá er júlímánuður kominn á enda og það var annað sem lauk í þessum mánuði en það voru strandveiðarnar.

Heilt yfir þá má segja að strandveiðarnar hafi gengið mjög vel frá Suðurnesjum og þá helst frá Sandgerði en mjög margir bátar, eða allt upp í 60 strandveiðibátar, voru að landa þar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað hefur gerst eftir að strandveiðunum lauk? Jú, einhverjir bátar hafa haldið áfram færaveiðum og helst þá verið að eltast við ufsann í kringum Eldey. Hafdal GK hefur til dæmis gengið ansi vel, hann hefur landað 6,3 tonnum í fjórum róðrum og mest 2,4 tonnum í einni löndun. Ragnar Alfreðs GK kom með 2,1 tonn í einni löndun og Sunna Líf GK kom með 1,1 tonn í einni löndun.

Bergur Vigfús GK er kominn með 11 tonn í fjórum róðrum og af því er ufsi um 6,7 tonn. Líf NS 3,4 tonn í tveimur róðrum.

Enginn netabátur hefur róið frá Suðurnesjum í júlí og í raun er spurning hvort Erling KE verði eini netabáturinn sem muni róa því Friðrik Sigurðsson ÁR, sem Hólmgrímur var með í leigu, er farinn. Maron GK er að fara í brotajárn og Halldór Afi GK er kominn á langlegudeildina í slippnum í Njarðvík.

Það sama má kannski segja um dragnótabátana en Aðalbjörg RE var eini báturinn sem var að veiða fram til 11. júlí en þá fór báturinn í slipp. Síðan þá hefur enginn dragnótabátur verið á veiðum.

Nesfiskstogarnir eru ennþá á rækjuveiðum fyrir norðan og gengur bara nokkuð vel. Pálína Þórunn GK reyndar aðeins búin að landa einu sinni og kom með 38,1 tonn í land og af því þá var rækja 16,9 tonn, Sóley Sigurjóns GK er komin með 187 tonn í fjórum löndunum og mest 58 tonn í löndun. Af þessum afla þá er rækja 95 tonn.

Tveir stórir línubátar hafa landað afla í Grindavík, Páll Jónsson GK sem kom með 166 tonn í tveimur túrum og Sighvatur GK með 241 tonn, einnig í tveimur túrum.

Það er orðið mjög fátæklegt í stóra línubátaflotanum á Suðurnesjum. Eins og þetta lítur út núna þá eru þessir tveir bátar orðnir einu stóru línubátarnir sem eftir eru á Suðurnesjuum, sá þriðji er Valdimar GK en alls er óvíst með útgerð á þeim báti.

Þetta er vægast sagt mjög mikil breyting frá því sem áður var. Til að mynda þá voru ellefu línubátar gerðir út frá Suðurnesjum árið 2000.

Einhamarsbátarnir hafa verið að veiða fyrir austan allan júlí og gengið nokkuð vel. Auður Vésteins SU komin með 124 tonn í sautján róðrum, Gísli Súrsson GK 123 tonn í fimmtán og Vésteinn GK 64 tonn í sjö. Óli á Stað GK er á Hornafirði og er búinn að landa 114 tonn í sautján róðrum, mest 15,3 tonn í einni löndun.

Enginn línubátur er á veiðum á Suðurnesjum.