Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Nýr veruleiki, hvort sem okkur líkar betur eða verr
Föstudagur 23. október 2020 kl. 07:03

Nýr veruleiki, hvort sem okkur líkar betur eða verr

Ég hef verið frekar þolinmóð og hlýðin í gegnum allt þetta Covid-vesen. Hef hlýtt Víði og stundum jafnvel verið meiri Þórólfur en Þórólfur sjálfur, eins og líkamsræktarþjálfarinn minn getur vottað. Og talandi um líkamsrækt – ég meira að segja hreyfi mig miklu meira en þennan hálftíma á dag sem Alma segir að við eigum að gera. Ég varla hitti fólk þessa dagana utan þeirra sem ég bý með – einn fjölskyldumeðlimur búinn að vera í sóttkví og smit nálægt okkur þannig að það eru allir að fara varlega. Ég býð fólki ekki heim og enginn býður mér. Ég lifði samt á brúninni í gær og stalst inn á höfuðborgarsvæðið, enda erindið afar brýnt, en lofa að ég sprittaði mig vel og vandlega og var með nýþvegna Keflavíkurgrímuna á andlitinu þegar ég stökk inn í Brauð og Co. til að birgja mig (og aðra í kringum mig) upp af súrdeigsbrauði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En ég hef svo sem ekki yfir of miklu að kvarta í þessu öllu saman. Eftir að hafa ferðast innanlands í sumar, eins og aðrir Íslendingar, náðum við hjónin meira að segja að stinga af í viku frí til Ítalíu í september. Það var sannarlega besta ákvörðun ársins 2020. Það var ekki bara það að við náðum að njóta lífsins og slaka á við sundlaugarbakkann í dásamlegu veðri í enn dásamlegra umhverfi, heldur líka það hversu gott það var að upplifa að það væri hægt að eiga „venjulegt“ líf þrátt fyrir Covid. Við ferðuðumst í flugvél, tókum leigubíla, vorum á hóteli, fórum út að borða, leigðum okkur bát og lágum í sólbaði alveg eins og venjulega. Nema hvað að við hegðuðum okkur öðruvísi og samkvæmt nýjum Covid-veruleika. Við héldum okkur í tveggja metra fjarlægð frá öðrum og vorum með grímur og spritt alls staðar þar sem það var ekki hægt. Nýi Covid-veruleikinn var orðinn normið þar sem við vorum á Ítalíu. Við vorum hitamæld þegar við tékkuðum okkur inn á hótelið og á hverjum morgni þegar við komum í morgunverð. Það var boðið upp á morgunverðarhlaðborð en í stað þess að við fengjum okkur sjálf af hlaðborðinu var grímu- og hanskaklæddur þjónn sem gekk með okkur og setti það sem við völdum á diskinn okkar.

Reglurnar voru skýrar og fólk fór eftir þeim. Það var enginn að ryðjast fram fyrir röðina, enginn að troða sér með þér í lyftuna þó það væri pláss, allir virtu það að það færi bara ein fjölskylda í einu. Þannig gekk þetta snurðulaust fyrir sig og allir slakir og gátu notið þess að vera til – og þetta held ég að sé kjarni málsins í baráttunni við þessa vondu veiru sem virðist ekkert vera að fara neitt í bráð. Við þurfum skýrar og skynsamar reglur og við þurfum að fara eftir þeim.

Við þurfum að sætta okkur við það að heimurinn er breyttur. Þetta kann að hljóma öfugsnúið en við þurfum gera hlutina öðruvísi til þess að geta haldið áfram að geta gert hlutina sem við erum vön að gera. Ég, eins og margir, vil geta farið í ræktina en þá verða ALLIR að virða nýju leikreglurnar, halda fjarlægð og sótthreinsa sig og áhöldin, ekki bara sumir. Ég vil að synir mínir geti stundað sitt nám í skólanum og verið með vinum sínum og sinnt félagslífinu eins og kostur er en þá – ef með þarf – með grímu, spritti og fjarlægðartakmörkunum sem ALLIR verða að virða. Til þess að geta farið á jólatónleika og búðarrölt eins og okkur langar öll að gera þegar þar að kemur þurfum við væntanlega að hegða okkur eitthvað öðruvísi – og þá skulum við bara gera það.

Hinn kosturinn er að við sitjum öll heima og endum með að deyja úr leiðindum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir