Nýr bátur til Sandgerðis
Annars var frekar rólegt um að vera frá því að síðasti pistill var skrifaður enda voru allir bátar stopp.
Marsmánuður var ansi góður eins og hefur fram komið hérna í þessum pistlum. Erling KE var hæstur netabátanna við Suðurnesin, var með 524 tonn í 28 róðrum og var í þriðja sætinu yfir allt landið. Hæstur var Bárður SH með 1.011 tonn í 34 róðrum en hann tvílandaði nokkuð oft.
Grímsnes GK var með 251 tonn í 27 róðrum, Langanes GK 222 tonn í 27, Maron GK 180 tonn í 27 og Þorsteinn ÞH 100 tonn í sextán róðrum.
Hjá línubátunum var Jóhanna Gísladóttir GK með 565 tonn í sex róðrum, Páll Jónsson GK 530 tonn í fimm, Fjölnir GK 454 tonn í fimm, Valdimar GK 394 tonn í fimm og Hrafn GK 358 tonn í fimm.
Af minni bátunum var Sandfell SU hæstur með 245 tonn í 25 róðrum en hann landaði í Grindavík, Sandgerði og Þorlákshöfn. Hafrafell SU var með 209 tonn í 24 en hann landaði á sömu stöðum og Sandfell SU. Vésteinn GK 193 tonn í 21 róðri.
Hjá dragnótabátunum var Sigurfari GK með 245 tonn í átján róðrum, Siggi Bjarna GK 243 tonn í átján, Benni Sæm GK 195 tonn í átján, Aðalbjörg RE 125 tonn í tólf og Ísey EA 117 tonn í tíu, allir lönduðu í Sandgerði.
Nýr bátur Blikabergs kominn á flot
Að ofan er minnst á bát sem heitir Hafrafell SU. Sá bátur hét áður Hulda GK og var í eigu Blikabergs ehf. í Sandgerði. Það fyrirtæki er í eigu Sigurðar Aðalsteinssonar og Gylfa Sigurðssonar fótboltamanns. Nú hafa þeir látið smíða nýjan bát sem hefur fengið nafnið Hulda GK og er kominn á flot en er ekki tilbúinn til veiða.
Óhætt er að segja að nýi báturinn sé ansi sérstakur. Hann er 11,99 metra langur en er mjög hár og breiður. Virkar vera vel yfir sex metrar á breidd en til samanburðar má geta að Einhamarsbátarnir í Grindavík, Gísli Súrsson GK, Auður Vésteins SU og Vésteinn GK, eru allir 14,99 metra langir og 4,44 metra breiðir. Indriði Kristins BA og Kristján HF eru 13,49 metra langir og 5,41 metra breiðir. Nýja Hulda GK verður gerð út á línu með beitningavél.