Nægur fiskur á færasvæðunum frá Grindavík og að Garðskagavita
Svona áður en áfram er haldið ætla ég að kíkja á dagatalið. Hmm já, það er víst 22. maí þegar ég skrifa þennan pistil en ekki 22. mars eins og mætti halda því að veðráttan hjá okkur á Suðurnesjunum er vægast sagt búin að vera furðuleg.
Mjög kalt og jafnvel éljagangur svo allt varð hvítt. Ofan í þetta hefur verið mjög mikill vindur og það hefur komið mjög illa við strandveiðibátana sem lítið gátu komist á sjóinn í síðustu viku.
Til að mynda þá eru 60 bátar í Sandgerði á strandveiðum og einungis örfáir þeirra náðu að skjótast út og helst voru það stærstu bátarnir eins og Tjúlla GK.
Spáin fyrir þessa viku er nú ekkert til þess að hrópa húrra fyrir en vonandi verður þó veður svo að þessi stóri floti komist út, því það virðst vera nægur fiskur á færasvæðunum frá Grindavík og að Garðskagavita.
Það eru reyndar ekki allir færabátarnir á strandveiði, til að mynda þá er Addi Afi GK kominn á ufsann og komin með 6,3 tonn í þremur róðrum og mest 4,1 tonn í einni löndun. Af þessum afla er ufsi 5,9 tonn. Annar stór bátur er líka kominn á ufsann og sá bátur er nú ansi þekktur á þeim veiðum. Ragnar Alfreðs GK sem er plastbátur, smíðaður á Skagaströnd 1978 en ansi margir plastbátar voru smíðaðir á Skagaströnd á árunum frá sirka 1975 til um 1985. Til að mynda er Sunna Líf GK líka smíðaður á Skagaströnd 1978 og Svala Dís KE er líka smíðaður á Skagaströnd, en reyndar mun seinna en hinir tveir eða árið 1983. Svölu Dís KE og Sunnu Líf KE er búið að breyta nokkuð, til að mynda lengja og breikka. Aftur á móti þá er Ragnar Alfreðs GK óbreyttur eins og hann var 1978.
Gamall og góður segir einhvers staðar og það má alveg segja það, í það minnsta þá hefur Robbi sem á og gerir út bátinn og er skipstjóri á bátnum, verið mjög fengsæll á færunum og Ragnar Alfreðs GK hefur verið aflahæsti færabátur landsins og er auk þess sá smábátur sem mestum ufsa hefur landað.
Ragnar Alfreðs GK er sem sé byrjaður og verður fróðlegt að sjá hvernig þessum gamla góða báti muni ganga. Hann byrjar nokkuð vel, var með 6,4 tonn í aðeins tveimur róðrum og mest 4,7 tonn í róðri, af þessum afla er ufsi 3,7 tonn.
Eins og mörg ykkar vitið þá er ég víst eini Íslendingurinn sem hefur verið að safna saman aflatölum í ansi mörg ár. Ég á aflatölur aftur til ársins 1894 og margir angar eru af þessari aflasöfnun minni, til að mynda þessir pistlar sem þið eruð að lesa og líka aflafrettir.is
Ég hef líka verið með smá útgáfustarfsemi í gangi og nýjasta afurð mín ef kalla mætti svo, er vertíðaruppgjörið 2023. Þarna er ég fjalla um alla þá báta sem náðu yfir 400 tonn á vertíðinni 2023. Til samanburðar fer ég aftur í árið 1973 og 1993 og skoða alla þá báta sem náðu yfir 400 tonn þessar þrjár vertíðir. Ansi gaman að sjá muninn, til að mynda voru aðeins 57 bátar sem náðu yfir 400 tonn á vertíðinni 2023 en á vertíðinni 1973 þá voru bátarnir 195.
Samhliða þessu er fjallað um togaranna og loðnuveiðarnar öll þessi þrjú ár. Því miður markaði árið 1993 smá leiðindi fyrir Sandgerðinga því að þetta var síðasta árið sem að loðnuskipið Sjávarborg GK var gerð út og í raun landaði Sjávarborg GK aðeins í eitt skipti, um 450 tonnum snemma á árinu 1993 á Raufarhöfn.
Eftir það var skipið selt og þar með lauk nokkuð fengsælli útgerð á þessum stærsta loðnubáti sem að Sandgerðingar hafa átt.
Ritið er 46 blaðsíður af stærð og í því eru 22 ljósmyndir. Þið getið pantað ritið með tölvupósti á [email protected] eða í síma 663-5575 (Gísli) eða 774-3616 (Hrefna Björk).