Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Mokveiði í  mjög góðum mars
Sigurfari GK og Maggý VE í höfn í Sandgerði um liðna helgi. VF/Hilmar Bragi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 7. apríl 2023 kl. 06:22

Mokveiði í mjög góðum mars

Þá er mars mánuðurinn liðinn og eins og við var að búast var hann mjög góður. Veðurfarið var gott og meira að segja færabátarnir gátu róið nokkuð duglega. Mokveiði var hjá færabátunum sem réru frá Sandgerði og nefna má að Huld SH 76 var með 32 tonna afla í mars sem landað var í Sandgerði og þegar mesta mokið var hjá bátnum þá náði báturinn að landa tvisvar sama daginn samtals um fimm tonnum af fiski. Huld SH er mjög lítill bátur, aðeins um 5,5 tonn að stærð, og um 8 metrar á lengd. Stærsta löndun bátsins í mars var 3,2 tonn sem er drekkhlaðinn báturinn. Þegar að Huld SH tvílandaði var báturinn á veiðum rétt utan við innsiglinguna til Sandgerðis og ekki nema um 15 mínútur að sigla í höfn. 

Aðrir færabátar sem veiddu vel voru Fagravík GK sem var með 22 tonn í 11 róðrum og mest 3,3 tonn í einni löndun. Hún var að veiðum rétt utan við Sandgerði. Kristján SH var svo með 12,4 tonn í 7 róðrum og mest 3,1 tonn. Sella GK með 12 tonn í fimm róðrum og mest 3,6 tonn og Sigurey ÍS 46 með 12 tonn í 7 og mest 2,4 tonn,  allir á veiðum rétt utan við Sandgerði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Grindavík var Þórdís GK með 17 tonn í 9 róðrum og mest 2,4 tonn. Hafdalur GK með 8,5 tonn í fjórum og Grindjáni GK með 7,5 tonn í fimm. 

Netabátarnir voru fáir en þeir veiddu vel. Erling KE var þeirra langhæstur með 456 tonn í 22 róðrum og mest 40 tonn í einni löndun. Grímsnes GK 184 tonn í 26 róðrum og má geta þess að bæði Erling KE og Grímsnes GK voru báðir með netin sín að hluta til í mars rétt utan við Kjalarnes, og inn í Hvalfirði og landaði þá Erling KE í Reykjavík. Maron GK var með 124 tonn í 24 róðrum og Halldór Afi GK 56 tonn í 15 róðrum.

Hjá dragnótabátunum var mars einnig mjög góður og aflahæstur var Sigurfari GK með 214 tonn í 15 róðrum og má bæta við að báturinn varð þriðji hæsti dragnótabáturinn á landinu í mars. Benni Sæm GK var með 180 tonn í 14 og mest 23,6 tonn. Maggý VE 169 tonn í 14 og mest 19,6 tonn.  Aðalbjörg RE 109 tonn í 15 og mest 13,8 tonn og Siggi Bjarna GK 80 tonn í 4 róðrum.

Línuveiðar voru mjög góðar og stóru línubátarnir mokveiddu. Sighvatur GK gerði sér lítið fyrir og var með 692 tonn í fimm róðrum og mest 149 tonn í einni löndun. Páll Jónsson GK með 576 tonn í fjórum róðrum og mest 170 tonn.  Þessi 170 tonna löndun bátsins er ein stærsta löndun línubáts á landinu miðað við ferskan fisk. Valdimar GK var með 516 tonn í sjö og mest 110 tonn. 

Af minni bátunum, og byrjum á heimabátunum, var Auður Vésteins SU með 238 tonn í 19 róðrum, mestu landað í Grindavík og smá í Sandgerði. Gísli Súrsson GK með 211 tonn í 19 róðrum og mest 19 tonn. Sævík GK með 148 tonn í 13 og mest 19 tonn. Óli á Stað GK með 119 tonn í sautján róðrum. Margrét GK var með 101 tonn í 10 róðrum, landað í Sandgerði. Daðey GK með 98 tonn í þrettán, Geirfugl GK með  91 tonn í fjórtán og Vésteinn GK 85 tonn í átta.

Síðan eru það bátarnir sem kalla mætti utanað  báta. Tryggvi Eðvarðs SH var með 104,9 tonn í sex róðrum í Grindavík og 64 tonn í fjórum róðrum í Sandgerði. Indriði Kristins BA var með 12,4 tonn í Grindavík í einni löndun og 90 tonn í sex róðrum í Sandgerði. Kristján HF var með 37,6 tonn í tveimur í Grindavík og 79 tonn í sjö róðrum í Sandgerði.

Einn bátur hóf grásleppuveiðar og var það Addi Afi GK sem var með 20,5 tonn í átta róðrum frá Sandgerði og af því var grásleppa 11,6 tonn. Addi Afi GK var með fyrstu bátum á Íslandi til þess að hefja grásleppuveiðar núna í ár.  Fleiri bátar eru að gera sig klára á veiðar, t.d. Garpur RE og Ragnar Alfreðs GK.

Reyndar hefði bátarnir örugglega getað veitt mun meira, því mikill fiskur var utan við Grindavík og Sandgerði og var kominn skömmtun á bátana, enda gengur hratt á kvótann í svona mokveiði og útgerðir reyna að „treina“ kvótann í það minnsta vel fram í sumar áður enn sumarfrí hefjast, en heilt yfir má segja að sjómenn séu mjög sáttir við nýliðinn mars mánuð.