Mikilvægt að bjarga fimm störfum á Akureyri
„Þetta eru skrýtnir tímar“ er sennilega algengasta setningin sem maður heyrir þessa dagana. Það er ekkert skrýtið en auðvitað er þetta samt mun verra, miklu verra. „Fáránlegir tímar“ væri sennilega nær lagi. Það kom upp í huga mér þegar ég leit við í flugstöð Leifs Eiríkssonar um hádegisbilið á þriðjudaginn. Kristján Jóhannsson, ekki söngvari og ekki leigubílsstjóri, birtist mér þar sem ég mundaði myndavélina og spurði hvað ég væri að mynda. „Ekkert,“ sagði ég í háðungstón. Meinti auðvitað flugstöð án fólks og starfsemi. Það var enginn í innritun, enginn að fá sér samloku eða djús í Joe & The Juice enda lokað og enginn Isavia starfsmaður á ferðinni. Jú, hann kom inn tíu mínútum síðar og horfði á mig í forundran. Hissa á því hvað VF-gaurinn væri að gera þarna með myndavélina í tómri flugstöðinni og líklega ekki með leyfi til að ljósmynda í tómri stöð. VF-gaurinn var nýkominn úr hádegismat sem honum var boðið í hjá Airport Associates, APA. Þar er verið að opna mötuneyti fyrirtækisins fyrir öðrum en starfsmönnum en eldhúsið getur þjónustað 700 starfsmenn. Það var fjöldinn hjá fyrirtækinu fyrir tveimur árum síðan. Nú eru þeir 130 í hundrað stöðugildum. APA byggði nýjar höfuðstöðvar og opnaði þær þegar seinna góðærið okkar á 21. öldinni náði hápunkti. Glæsilegt hús og nú er nóg pláss fyrir alla og rúmlega það. Við hlið þess er enn stærri þriggja hæða glæsibygging Icelandair sem lokið var við að byggja í fyrra. Á að hýsa ýmsa starfsemi sem liggur að mestu leyti niðri núna. Ekki mikla hreyfingu að sjá innan dyra. Hinum megin við götuna er stærsta hús á Suðurnesjum og þó víðar væri leitað, nýstækkað flugskýli Icelandair. Þar hefur starfsmönnum líka fækkað.
Á leið aftur til baka frá flugstöðvarsvæðinu keyrir maður framhjá bílaleigunum. Engir ferðamenn sáust á leið í Íslandshring með bíllykla í hönd. Nú reyna bílaleigurnar að bjarga einhverju með því að bjóða bíla í langtímaleigu og selja úr bílaflotanum. Þegar mest var náði fjöldi bílaleigubíla við Keflavíkurflugvöll um 25 þúsund og flestir í útleigu yfir sumarið. Þeim hefur líklega fækkað um helming og bílaleigurnar orðnar bílasölur. Margeir frændi hjá Geysi er einn söluhæsti bílasali landsins síðustu mánuðina.
Palli var einn í heiminum keyrði áfram heim á leið, fram hjá nýjasta hóteli landsins, Marriott. Gardínur fyrir gluggum og engin hreyfing. Hótelið var tilbúið í lok mars, um það leyti sem þessi fokkíng veira mætti. Hótelið bíður enn opnunar. Smakkaði geggjaðan Angus hamborgara þar í heimsókn okkar VF-manna í lok mars. Bíð eftir því að komast þar aftur í góðan borgara við fyrsta tækifæri. Fæ mér kannski kaldan með.
Það var stórfrétt á Akureyri fyrir nokkrum vikum. Fimm manns (ekki fimm hundruð) voru að missa vinnuna út af lokun fangelsis. Gott ef þetta var ekki með fyrstu fréttunum á RÚV þann daginn. Vonandi að þetta fari nú allt vel þarna fyrir norðan. Ekki má störfunum á landsbyggðinni fækka var sagt. Dómsamálaráðherra fór strax í málið og frestaði lokun fangelsisins til 15. september til að skoða málið betur. Þetta var alvarlegt. Ekki má gera lítið úr því. Það eru ekki nema fjögur þúsund atvinnulausir á Suðurnesjum. Svona er lífið nú skrýtið.
Páll Ketilsson
ritstjóri.