Með sólina í baksýnisspeglinum
Loksins er farið að birta aftur. Heiðin sem er svo myrk á veturna en svo fögur í morgunbjarmanum. Hvalsneskirkja í augsýn og Atlantshafið framundan. Með sólina í baksýnisspeglinum hlusta ég á Villa Vill og kem mér í gírinn fyrir ævintýrin sem bíða mín. Stundum með koffíndrykk við höndina og fer yfir skipulag dagsins í huganum. Yfirleitt alveg að verða sein en morgnar hafa svosem aldrei verið mín sterkasta hlið.
Ég labbaði í bæinn ómar í spilaranum, lag sem ég tók algjöru ástfóstri við átta ára gömul eftir að hafa fundið geisladiskinn á Túngötunni hjá ömmu og afa. Villi minnir mig á að kannski ættum við að hlusta aðeins betur á ungdóminn sem mun erfa landið okkar einn daginn ...
Því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur komið fram með svörin, þar sem sigldum við í strand.
Kennarastarfið er að þessu leyti er svo þýðingarmikið. Við erum áhrifavaldar að mörgu leyti. Við fáum nefnilega að taka þátt í að móta framtíðina. Framtíðar pólitíkusar, framtíðar heilbrigðisstarfsmenn, kennarar, listamenn, þjálfarar, iðnaðarfólk ... nefndu það. Enginn dagur er eins en hver dagur víkkar sjóndeildarhringinn örlítið meir og reynslubankinn auðgast. Hækkun vísitölunnar í minningabankanum er þó kannski það besta.
Ein af mínum uppáhaldsminningum var þegar við kennararnir lögðum okkur öll fram í átaki við að gera skólastofurnar sem líflegastar og bættum inn fjöldanum öllum af plöntum. Mér, sem aldrei hef verið þekkt fyrir sérstaklega græna fingur, tókst að drepa hverja plöntuna á fætur annarri, ýmist vegna skorts á sólarljósi eða vatni. Á þessum tíma var ég ólétt svo það afsakar kannski vandræðaganginn en heilinn var upptekinn við annað. Einn nemenda minna hallar sér að sætisfélaga sínum alvarlegur á svip og segir lágum rómi: „Ég veit nú ekki hvernig hún ætlar að hugsa um krakka ef hún nær ekki einu sinni að halda plöntum á lífi.“
Þegar ég kenndi svo eitt sinn á yngsta stigi kom lítil stúlka aftan að mér og fór að róta þessi ósköp í hárinu á mér. Þegar ég sný mér við segist hún vera að leita af augunum sem sagt sé að kennarar hafi í hnakkanum. Ekki fann hún augun heillin en þó vil ég ekki neita því að kennarar hafi hreinlega aukasett af augum og jafnvel eyrum.
Við megum samt ekki gleyma að unga fólkið okkar elst upp við allt annan veruleika en við gerðum. Nú er tæknin mun öflugri en áður og þau mun vanari að skrifa í símtækin sín en á blað. Því hefur nýja kynslóðin ekki eins mikla þolinmæði í að skrifa langa texta eða orð, enda fljótlegra að pikka inn á lyklaborð. Í landafræðitíma var spurt um hæsta tind Íslands, sem heitir því langa og skemmtilega nafni Hvannadalshnjúkur, og þegar skrifa átti svarið heyrðist í einum: „Oh, þurfum við að skrifa allt orðið eða er eitthvað hægt að stytta þetta?“ Heilir sextán stafir.
Okkur kann að finnast að ungdómurinn nú, sé einskis nýtur – reki í lífsins gjólum. En gleymum ekki staðreyndum, því staðreyndin er sú: Það vorum ég og þú sem upp þau ólum.